banner
   mán 02. maí 2016 11:30
Magnús Már Einarsson
„Vantar stemningu og gleði í Blikana"
Kristján Guðmundsson - Sérfræðingur Fótbolta.net
Kristján Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net.
Kristján Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Ólsarar fagna sigrinum í gær.
Ólsarar fagna sigrinum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
„Þetta var leikur margra mistaka af hálfu beggja liða. Það var örlítið meiri þéttleiki og heildarsvipur í Ólafsvíkur liðinu," segir Kristján Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net þegar hann rýnir í leik Breiðabliks og Víkings Ólafsvíkur í gær.

Ólafsvíkingar byrjuðu tímabilið af krafti með 2-1 útisigri á liði Breiðabliks sem endaði í 2. sæti í Pepsi-deildinni í fyrar.

„Ólsararnir voru on sem lið allan tímann. Þeir voru þéttir. Þeir spiluðu mjög einfalt. Þeir spiluðu strax upp á framherjana sem eru sterkir og góðir. Ég skil þá spilamennsku mjög vel. Síðan voru þeir traustir til baka," segir Kristján.

Mikið álag á Oliver
Þorsteinn Már Ragnarsson og Kenan Turudija skoruðu mörk Ólafsvíkinga með frábærum langskotum. Kristján segir að Oliver Sigurjónsson þurfi einn að vernda of stór svæði í liði Blika.

„Það er mikið álag varnarlega á Oliver (Sigurjónssyni) á miðjunni. Hann fær ekki nógu mikla aðstoð á miðsvæðinu. Kantarnir fara gleitt og þá er oft opið. Það sést best á því að Ólafsvíkingar fá nokkur skot fyrir utan teig og skora bæði mörkin þannig. Þeir áttu líka nokkur hörkuskot sem Gulli (Gunnleifur Gunnleifsson) átt í fullu fangi með að slá yfir slá."

Kristján segir að Blikar verði að gera mun betur ef þeir ætli í titilbaráttuna í sumar.

„Mér fannst vanta neista og líf í Blikana. Það vantaði stemningu og gleði. Það vantar leikmann sem brýtur upp leikinn. Það vantar að þeir megi brjóta sig úr strúktúrnum. Það megi vera smá frelsi í sóknarleiknum."

„Þeir eru stórhættulegir þegar þeir ná að halda boltanum fyrir framan teig andstæðingsins en þeir geta lent í vandræðum í varnarleiknum. Það er mikið lagt á Oliver í varnarleiknum. Þeir þurfa að spila mikið betur ef þeir ætla að fylgja eftir árangrinum frá því í fyrra."


Ólafsvíkingar gætu farið nálægt miðjunni
Ólafsvíkingar eru reynslunni ríkari eftir að hafa spilað í Pepsi-deildinni 2013 og Kristján telur að liðið geti gert gott mót í sumar.

„Heimildir mínir segja að þeir séu að bæta við sig hafsent sem er eðlilegt því að þeir misstu Admir Kubat út. Þeir eru að fá leikmann í staðinn fyrir hann og jafnvel einn í viðbót. Ef að það er réttur skilningur að þeir hafi lært af tímabilinu 2013 þá eiga þeir möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Þeir ógna ekki toppnum en með stemningu geta þeir farið nálægt miðjunni," sagði Kristján.
Athugasemdir
banner
banner
banner