mán 02. maí 2016 22:23
Ívan Guðjón Baldursson
Wes Morgan: Bjóst enginn við að þetta myndi enda með titli
Mynd: Getty Images
Wes Morgan, fyrirliði og miðvörður Leicester City, hefur verið stórkostlegur ásamt Robert Huth í hjarta varnarinnar.

Morgan er búinn að tjá sig um Englandsmeistaratitilinn sögulega sem Leicester tryggði sér í kvöld þökk sé 2-2 jafntefli á milli Chelsea og Tottenham.

„Þetta er besta tilfinning sem ég hef upplifað á ferlinum og ég gæti ekki verið stoltari," sagði Morgan.

„Það trúði enginn að þetta væri mögulegt en hér erum við, með fyllilega verðskuldaðan Englandsmeistaratitil í höndunum. Ég get ekki beðið eftir laugardeginum, ég hlakka til að halda á bikarnum."

Morgan talaði um liðsandann sem skilaði Leicester þessum ótrúlega titli og segir að liðið hafi fyrst sýnt þennan liðsanda í fallbaráttunni á síðasta tímabili.

„Ég hef aldrei kynnst jafn miklum liðsanda og ríkir í búningsklefanum okkar, við erum sem bræður. Fólk sá þetta fyrst á síðasta tímabili þegar við virtumst vera að falla, en við börðumst á móti, afsönnuðum marga og björguðum okkur frá falli.

„Þetta tímabil er búið að vera áframhald af því. Við náðum að vinna einhverja leiki í röð og byggðum upp sjálfstraust en enginn bjóst við því að þetta myndi enda með Englandsmeistaratitli."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner