þri 02. maí 2017 14:40
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Spilaði fyrst með meistaraflokki 12 ára og lék í Pepsi í gær
Alex Þór Hauksson í leik á undirbúningstímabilinu.
Alex Þór Hauksson í leik á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hér má sjá þegar Alex er að koma inn sem varamaður 12 ára gamall í 3. deildinni 2012.
Hér má sjá þegar Alex er að koma inn sem varamaður 12 ára gamall í 3. deildinni 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Valur Böðvarsson
Alex Þór Hauksson, 17 ára miðjumaður, var í byrjunarliði Stjörnunnar gegn Grindavík í gær og lék þá sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni. Alex er gríðarlegt efni sem miklar vonir eru bundnar við í Garðabænum en áhugavert er að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í Íslandsmóti 12 ára gamall.

Hann kom inn sem varamaður hjá Álftanesi gegn Huginn í 3. deildinni 17. ágúst 2012.

„Ég var á yngra ári í 4. flokki þá. Það var hvorki 2. né 3. flokkur hjá félaginu og það vantaði á skýrsluna. Ég var bara næstur á blað. Það var mjög skrítið og það gerist ekki oft að svona ungur leikmaður spili með meistaraflokki," segir Alex sem fékk einhverjar þrjár mínútur og man vel eftir þeim.

„Ég náði einni sendingu á þessum tíma og hún hitti mann," segir Alex léttur.

Það kom honum á óvart að fá tækifærið í byrjunarliðinu í gær. Það var rok og rigning í Grindavík en leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

„Ég bjóst ekki alveg við þessu en fékk að vita þetta með góðum fyrirvara og var alveg tilbúinn í þetta. Aðstæður voru erfiðar og þetta var erfitt í byrjun en við náðum tökum á þessum leik. Við vorum með yfirburði á vellinum en það er erfitt að spila í svona roki."

Kallaður Kante í Garðabænum
Alex hefur verið fyrirliði hjá U17 landsliði Íslands og er leikmaður með mikla fótboltagreind. Fótbolti.net bað hann um að lýsa sér sem leikmanni.

„Ég er svona akkeri á miðju, ég vil vera að vinna boltann og bera hann upp. Mínir styrkleikar eru að stýra spilinu og koma boltanum í leiknum. Menn eru duglegir að kalla mig Kante í Stjörnunni. Það er klárlega leikmaður sem ég lít upp til, ég sé alveg einhver líkindi," segir Alex.

Ungir leikmenn létu að sér kveða í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar og segir Alex það að sjálfsögðu jákvætt að þjálfarar séu farnir að gefa efnilegum mönnum tækifæri.

„Það er mikil breyting frá því í fyrra. Þetta eru stórir og góðir árgangar, það er mikil breidd í þessum árgöngum og margir flottir leikmenn að fá tækifæri. Þeir stóðu sig vel í fyrstu umferðinni og vonandi er bara meira á leiðinni."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner