Liverpool og Man Utd á eftir Simons - Sancho áfram hjá Chelsea - Real Madrid hefur áhuga á Rodri
   mið 02. maí 2018 15:30
Hulda Mýrdal
Donni: Það þarf allt að ganga upp
Donni fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra.
Donni fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Þessi spá er í takt við það sem við ætlum okkur að gera í sumar," segir Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Íslandsmeistara Þórs/KA en Fótbolti.net spáir því að liðið verji titil sinn í sumar.

„Við ætlum okkur að vinna alla leiki í sumar. Svo ef það tekst þá hljótum við að vinna allt. Það verður mjög erfitt og það þarf allt að ganga upp, það gera sér allir grein fyrir því. Það eru mörg góð lið í sama leiðangri en við höfum trú á okkur, eins og fleiri sýnist mér. Það er allt hægt í þessu."

Þór/KA vann Lengjubikarinn í síðustu viku og meistarakeppni KSÍ um síðustu helgi. Getur eitthvað lið stoppað Þór/KA í að vinna tititlinn aftur?

„Við stefnum á að láta ekkert stoppa okkur. En stelpurnar þurfa að vera sterkar bæði andlega og likamlega. Það vita allir hjá okkur að allir leikir verða mun erfiðari núna í sumar. Það vilja öll lið vinna meistarana og svo bætist við álag vegna Evrópukeppninnar.
En við Andri Hjörvar (aðstoðarþjálfari) höfum óbilandi trú á stelpunum og svo ef stuðningsmennirnir okkar detta aftur í stuð með okkur þá er allt hægt,"
sagði Donni sem er ánægður með undirbúningstímabilið.

„Það hefur gengið mjög vel. Stelpurnar ótrúlega duglegar og einbeittar í sinni vinnu. Mér líður eins og þær séu að toppa sig á réttum tíma og koma fljúgandi inni í tímabilið."

Donni reiknar með hörkukeppni um titilinn í sumar. „Valur, Breiðablik, Stjarnan og ÍBV verða í baráttu við okkur um titlana í sumar. Þetta eru mjög sterk lið sem ætla sér stóra hluti og það verður mjög erfitt að eiga við þau," sagði Donni en reiknar hann með frekari liðsstyrk á næstunni?

„Sandra María (Jessen) og Heiða Ragney (Viðarsdóttir) hafa ekkert verið með okkur í vetur svo þær geta kallast liðsstyrkur fyrir mótið. En annars nei þá erum við með sterkan hóp sem við treystum fyrir þessu verkefni. Ekki nema ef Bryndís Lára (Hrafnkelsdóttir) hefur ekki tíma fyrir okkur, þá munum við sækja markmann."

Nánast allir íslensku leikmenn Þórs/KA koma frá Akureyri. Hversu miklu máli skiptir það? „Það skiptir nánast öllu máli. Karakter, liðsheild, samstaða og hjartað fyrir því sem við erum að gera er það sem við fórum langt á síðasta sumar. Það er auðveldara að sækja í þessa hluti þegar leikmenn spila fyrir sitt heimafélag. Síðan er það staðreynd að stuðningsmenn fylkjast enn meira a bakvið okkur vegna þessa. Það þekkja allir einhvern í liðinu eða tengjast einhverjum sem gerir það."

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir varði mark Þórs/KA í vetur en hún tók sér frí frá fótbolta í vetur. Hún er mætt aftur í markið þar sem Helena Jónsdóttir sleit krossband á dögunum. Hvaða áhrif hefur það á liðið að vera með markmann sem hefur ekki æft með því í vetur?

„Bryndís er í góðu formi og ekki ólíklegt að hún kasti boltanum í mark andstæðingana einu sinni eða tvisvar í sumar.
Auðvitað er leiðinlegt að hafa hana ekki á öllum æfingum með okkur þvi hún er frábær og skemmtilegur karakter. En hún þekkir allt sem við stöndum fyrir og við erum með tvö frábæra markmenn á æfingum í Hörpu og Söru Mjöll svo þetta verður í fínu lagi,"
sagði Donni að lokum.

Draumaliðsdeild 50skills
Mundu að gera breytingar á þínu liði í Draumaliðsdeild 50skills. Hægt er að skrá sig í allt sumar. Markaðurinn lokar klukkutíma fyrir fyrsta leik umferðarinnar.
Smelltu hér til að taka þátt í Draumaliðsleiknum!
Athugasemdir
banner