fim 02. júlí 2015 20:51
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: KR útvarpið 
Bjarni Guðjóns: Þeir komu ekkert á óvart - Eigum að vinna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Guðjónsson er sáttur með úrslitin eftir 1-1 jafntefli KR á útivelli gegn írska félaginu Cork City.

Bjarni er eilítið svekktur með að hafa ekki unnið leikinn og er mjög bjartsýnn fyrir síðari leikinn í Frostaskjólinu.

„Þetta eru ágætis úrslit í sjálfu sér en við gleymum okkur í markinu sem þeir skora," sagði Bjarni í símtali við KR útvarpið.

„Við áttum tækifæri til að skora sem við nýttum ekki og vorum miklu betri síðasta korterið.

„Þeir komu okkur ekkert á óvart, þeir spila breitt og notast mikið við fyrirgjafir. Við erum bjartsýnir fyrir seinni leikinn.

„Þeir verða væntanlega ekki alveg jafn sterkir á útivelli. Við eigum að setja kröfu á okkur sjálfa að vinna þá á heimavelli."


KR lenti undir snemma í leiknum en það tók Óskar Örn Hauksson aðeins níu mínútur að jafna leikinn. Bjarni sagði það mjög jákvætt og talaði einnig um hörkuna sem einkennir knattspyrnuna á Bretlandseyjum.

„Það var mjög jákvætt að svara skjótt eftir að þeir komust yfir. Þeir eru harðir af sér, þannig er fótboltinn á Bretlandseyjum. Þetta er kraftafótbolti mikill, svipaður og neðrideildarboltinn á Englandi þar sem er dugnaður og kraftur gildir meira en gæði."

Gonzalo Lorenzo Balbi fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og þurfti Skúli Jón Friðgeirsson aðhlynningu eftir tvo árekstra á lokamínútum leiksins.

„Ég geri ráð fyrir að Skúli Jón verði í lagi en við þurfum að sjá til með Balbi."

FH lagði finnska liðið SJK á útivelli fyrr í kvöld og Víkingur R. er að tapa á heimavelli gegn slóvenska liðinu FC Koper þegar fimm mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma. Liðin mætast aftur næsta fimmtudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner