fim 02. júlí 2015 17:53
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: FH vann í Finnlandi
Steven Lennon gerði sigurmark FH-inga beint úr aukaspyrnu.
Steven Lennon gerði sigurmark FH-inga beint úr aukaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það er mikið um að vera í undankeppni Evrópudeildarinnar þessa dagana þar sem mörg lið frá Norðurlöndunum etja kappi og eru þrjú þeirra íslensk.

FH hefur lokið leik gegn finnska liðinu SJK og gerði Steven Lennon eina mark leiksins snemma í síðari hálfleik.

SJK endaði í 2. sæti finnsku deildarinnar á síðasta tímabili og er í 3. sæti sem stendur, með 27 stig úr 15 leikjum.

Leikurinn var tíðindalítill þar sem heimamenn reyndu að stjórna taktinum en FH-ingar vel skipulagðir og gáfu fá færi á sér. Lennon fékk nokkur góð færi í leiknum og kom markið hans beint úr aukaspyrnu.

Haukur Heiðar Hauksson lék þá allan leikinn í liði AIK sem gerði jafntefli við finnska liðið VPS. AIK stjórnaði leiknum frá upphafi til enda og áttu heimamenn aðeins tvö skot í leiknum sem höfnuðu bæði í neti gestanna frá Svíþjóð.

Randers lagði þá Sant Julia í Andorru og Elfsborg gerði jafntefli við finnska liðið Lahti.

Síðar í kvöld á KR útileik gegn Cork City á Írlandi og Víkingur heimaleik gegn slóvenska liðinu Koper. Síðari leikirnir verða spilaðir að viku liðinni.

SJK 0 - 1 FH
0-1 Steven Lennon ('56

VPS 2 - 2 AIK
1-0 A. Catovic ('45)
2-0 J. Seabrook ('65)
2-1 N. Bahoui ('70)
2-2 N. Bahoui ('83, víti)

Lahti 2 - 2 Elfsborg
0-1 M. Rohden ('15)
1-1 P. Lagerblom ('25)
1-2 V. Prodell ('59)
2-2 M. Alves ('61)

Sant Julia 0 - 1 Randers
0-1 J. Borring ('22)
Rautt spjald: V. Lundberg ('17) og J. Tverskov ('81), Randers
Athugasemdir
banner
banner
banner