Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 02. júlí 2015 09:00
Elvar Geir Magnússon
Milos: Fengum upplýsingar frá fyrrum leikmanni þeirra
Milos Milojevic, þjálfari Víkings.
Milos Milojevic, þjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rolf Toft, leikmaður Víkings.
Rolf Toft, leikmaður Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Milos og Ólafur Þórðarson. þjálfarar Víkings.
Milos og Ólafur Þórðarson. þjálfarar Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Víkingar telja sig vera vel undirbúna fyrir leikinn gegn FC Koper frá Slóveníu í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Um er að ræða fyrri leik liðanna sem fram fer á Víkingsvelli 19:15.

Milos Milojevic, annar þjálfara Víkings, segir vel hafa gengið að afla upplýsinga um mótherjana.

„Þessi leikur leggst mjög vel í okkur þjálfarana og strákana. Við höfum náð að skoða Slóvenana vel. Um leið og búið var að draga þá byrjuðum við að safna upplýsingum. Við fengum upplýsingar í gegnum greiningarforrit og einnig frá serbneskum leikmanni sem spilaði með þeim í fyrra," segir Milos.

„Eini óvissuþátturinn er varðandi fjóra leikmenn sem eru nýkomnir til félagsins. Ég veit ekki hvort þeir verði allir í byrjunarliðinu en er sannfærður um að tveir af þeim að lágmarki verði þar."

Varnarsinnaðir andstæðingar
Víkingar fengu í hendurnar í gær upptöku frá síðasta æfingaleik Koper sem fram fór 27. júní.

„Við erum með fullt af upplýsingum um þá en þetta veltur mest á okkur sjálfum. Við virðum andstæðingana í undirbúningnum en mikilvægast er að einbeita sér að okkur og ná fram okkar gæðum."

FC Koper er atvinnumannalið en liðið er mjög varnarsinnað segir Milos. Miklar væntingar eru gerðar til liðsins á komandi tímabili í Slóveníu.

„Þeir spila 5-3-2 eða 5-4-1 varnarlega og þeirra hugmyndafræði snýr að öflugum varnarleik og reyna að ógna úr snöggum sóknum eða föstum leikatriðum. Það er ítalskur þjálfari og liðið er með tvo öfluga varnarmenn sem eru góðir í föstum leikatriðum," segir Milos.

Svipaður og Veigar Páll
Besti leikmaður Koper er bosníski miðjumaðurinn Goran Galesic sem er væntanlega á förum frá liðinu en Milos reiknar með því að hann taki þó þátt í leikjunum tveimur gegn Víkingi.

„Svo eru þeir með slóvenskan U21-landsliðsmann sem heitir Mitja Lotric. Framherji sem er ekki ólíkur leikmaður og Veigar Páll (Gunnarsson). Góður og flinkur fótboltamaður. Einnig get ég minnst á fyrirliðann og leiðtoga liðsins, Ivica Guberac, sem er sonur forseta félagsins."

„Við eigum að standa betur að vígi hvað varðar það að við erum á miðju keppnistímabili en þeir á sínu undirbúningstímabili. Í stöðum þegar við eða þeir missa boltann þá ættum við að vera tilbúnari og grimmari en þeir. Þetta er okkar tækifæri," segir Milos.

Spila stóra leiki en æfa lítið
Frammistaða Víkinga í Pepsi-deildinni hefur verið talsvert undir væntingum. Hvernig er andinn í hópnum fyrir þetta Evrópuverkefni?

„Allir eru spenntir en spennustigið er rétt stillt tel ég og menn eru einbeittir. Vissulega hefur gengið í deildinni verið slæmt og við erum ekkert að fela það en spilamennskan og það sem við höfum sýnt er ekki í takt við það sem taflan segir. Menn eru meðvitaðir um það og allir vinna hart að því að reyna að sameina spilamennsku og úrslit. Stemningin í hópnum er mjög fín."

Það eru fleiri stórleikir framundan hjá Víkingi en á sunnudag leikur liðið gegn Val í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins.

„Það er þétt prógramm framundan en svona er gott að hafa þetta, spila stóra leiki og æfa lítið," segir Milos léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner