Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 02. ágúst 2017 16:31
Elvar Geir Magnússon
Misheppnuð tilraun með „Ofurleikinn" - Verður tómlegur Laugardalsvöllur
Illa hefur gengið að selja á Ofurleikinn á Laugardalsvelli.
Illa hefur gengið að selja á Ofurleikinn á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verða ekki margir að horfa á Aguero á Íslandi.
Það verða ekki margir að horfa á Aguero á Íslandi.
Mynd: Getty Images
Það stefnir í að það verði tómlegt um að lítast á Laugardalsvelli á föstudaginn þegar ensku úrvalsdeildarliðin Manchester City og West Ham mætast í æfingaleik klukkan 14.

Áhuginn hefur verið gríðarlega langt undir væntingum þeirra sem standa að leiknum sem hefur verið kallaður Ofurleikurinn eða Super Match.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafa aðeins um 3 þúsund miðar selst á leikinn en Laugardalsvöllur tekur 9.800 manns í sæti.

Fyrir leikinn höfðu aðstandendur búist við fullum velli og bjuggu sig undir að setja aukastúku fyrir aftan annað markið.

Leikurinn er háður viku áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst.

Ástæður þess hve illa hefur gengið að selja á leikinn eru meðal annars þær að tímasetningin er ekki góð á Íslandi, í upphafi verslunarmannahelgar, og þá er leikurinn klukkan 14 á virkum vinnudegi.

Auk þess hefur hátt miðaverð verið til umræðu og að vinsældir þessara tveggja liða á Íslandi eru engan veginn nálægt því sem lið eins og Manchester United og Liverpool njóta. Fjölmargir Íslendingar fara erlendis á hverjum vetri á leiki ensku úrvalsdeildarinnar en áhuginn á þessum æfingaleik hefur verið takmarkaður.

Aðstandendur leiksins hafa gripið til ýmissa ráða til að reyna að auka áhugann. Mun hærri upphæðum hefur verið eytt í kynningarstarf en ráðgert var og auglýsingastofa ráðin til að reyna að skapa meiri áhuga.

Þessar tilraunir hafa þó ekki skilað miklu samkvæmt heimildum Fótbolta.net og nú er farið að gefa frímiða á leikinn í útvarpi og öðrum fjölmiðlum til að reyna að bjarga ásýnd leiksins. Einnig eru í gangi ýmis tilboð á miðaverði.

Leikmenn Manchester City og West Ham koma til landsins á morgun og verða þá opnar æfingar fyrir þá sem eiga miða. Auk þess verða fréttamannafundir vegna leiksins.

Ólíklegt er að þeir sem standa að leiknum muni aftur horfa til Íslands þegar kemur að viðburði sem þessum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner