þri 02. september 2014 10:45
Elvar Geir Magnússon
Ensk félög aldrei eytt jafn miklu í sumarglugganum
Mynd: Getty Images
Nýtt met var sett í félagaskiptaglugganum í sumar en ensku úrvalsdeildarfélögin eyddu 835 milljónum punda í að styrkja leikmannahópa sína.

Gluggadagurinn í gær hjálpaði til við að þrýsta metinu í gegn; Radamel Falcao kom til Manchester United á láni fyrir 6 milljónir punda, Daley Blind kom fyrir 13,8 milljónir punda og Danny Walbeck til Arsenal fyrir 16 milljónir punda.

Lægri fjárhæðum var eytt á sjálfum Gluggadeginum miðað við 2013 en fyrri kaup sumarsins, eins og kaup Manchester United á Angel Di Maria fyrir 59,7 milljónir punda, gerðu það að verkum að met var sett.

Deloitte segir að ekkert félag hafi eytt eins miklum peningi í einum glugga eins og Manchester United í þessum, nærri 150 milljónum punda.

Stór ástæða fyrir meiri eyðslu er nýr samningur um sjónvarpsrétt deildarinnar sem er kominn á annað ár. Sá samningur er 70% hærri en fyrri samningur.

Þrjú af þeim félögum sem versluðu mest í sumar voru róleg á Gluggadeginum. Liverpool hefur eytt 117 milljónum punda síðan í lok síðasta tímabils, Chelsea 91,3 milljónum og Manchester City 50 milljónum.
Athugasemdir
banner
banner
banner