Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 02. október 2014 15:50
Þórður Már Sigfússon
Úttekt: Sætanýting Laugardalsvallar ein sú besta í Evrópu
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Tark
Gróf tölvuteiknuð mynd af því hvernig Laugardalsvöllurinn gæti litið út í framtíðinni.
Gróf tölvuteiknuð mynd af því hvernig Laugardalsvöllurinn gæti litið út í framtíðinni.
Mynd: Þórður Már Sigfússon
Þjóðverjar styðja ávallt vel við bakið á sínum mönnum.
Þjóðverjar styðja ávallt vel við bakið á sínum mönnum.
Mynd: Getty Images
Svona mun nýr heimavöllur Gíbraltar líta út eftir nokkur ár.
Svona mun nýr heimavöllur Gíbraltar líta út eftir nokkur ár.
Mynd: GibraltarFA
Svona hefur KSÍ hugsað sér að stækka völlinn; stúkurnar færast lítið eitt nær vellinum.
Svona hefur KSÍ hugsað sér að stækka völlinn; stúkurnar færast lítið eitt nær vellinum.
Mynd: bj.snæ.arkitektar
Lúxemborg hefur ákveðið að reisa þennan leikvang í stað hins gamla Josy Barthel.
Lúxemborg hefur ákveðið að reisa þennan leikvang í stað hins gamla Josy Barthel.
Mynd: LuxembourgFA
Þessi stórglæsilegi leikvangur mun prýða Tirana, höfuðborg Albaníu innan fárra ára.
Þessi stórglæsilegi leikvangur mun prýða Tirana, höfuðborg Albaníu innan fárra ára.
Mynd: ManicaArchitecture
Kosovo, sem vonast til að taka þátt í undankeppnum stórmóta innan fárra ára, ráðgera að reisa leikvang svipuðum þessum.
Kosovo, sem vonast til að taka þátt í undankeppnum stórmóta innan fárra ára, ráðgera að reisa leikvang svipuðum þessum.
Mynd: KosovanFA
Svona mun nýr Windsor Park í Norður-Írlandi líta út að loknum endurbótum sem nú standa yfir.
Svona mun nýr Windsor Park í Norður-Írlandi líta út að loknum endurbótum sem nú standa yfir.
Mynd: N-IrishFA
Það getur orðið napurt og vindasamt á Laugardalsvelli enda völlurinn mjög opinn.
Það getur orðið napurt og vindasamt á Laugardalsvelli enda völlurinn mjög opinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðalstúkan að vetri til.
Aðalstúkan að vetri til.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Draumsýn ein? Tölvuteiknuð mynd af Laugardalsvelli með sætum fyrir 20.000 manns.
Draumsýn ein? Tölvuteiknuð mynd af Laugardalsvelli með sætum fyrir 20.000 manns.
Mynd: Þórður Már Sigfússon
Ef stuðst er við áhorfendatölur síðustu fjögurra undankeppna stórmóta kemur í ljós að sætanýtingin á Laugardalsvelli er á meðal þess sem best gerist í Evrópu. Rúmlega 83% sæta vallarins voru nýtt á þessu tímabili, frá 2006 til 2013, en þjóðir á borð við Portúgal, Ítalíu, Danmörku, Svíþjóð og Belgíu voru t.a.m. með lakari nýtingu á sætum.

Þjóðverjar voru duglegastir að mæta á völlinn til að styðja sína menn en nýting sæta á landsleikjum Þýskalands heimafyrir var 95,3%, gjaldkera þýska knattspyrnusambandsins til ómældrar gleði. Hins vegar hlýtur kollegi hans hjá kýpverska knattspyrnusambandinu að hafa sofið illa síðustu ár þar sem sætanýtingin á heimavelli Kýpur nam einungis um 22% á þessu sama tímabili.

Þessar tölur koma nokkuð á óvart ef mið er tekið af hörmulegu gengi íslenska landsliðsins á fyrri hluta þessa tímabils auk efnahagskreppunnar sem gengið hefur yfir þjóðina síðustu ár.

Stærri Laugardalsvöllur mun standa undir sér
Laugardalsvöllurinn tekur 9.800 manns í sæti en áður en reglugerðir og skorður voru settar á notkun áhorfendastæða á landsleikjum á vegum evrópska Knattspyrnusambandsins, kom fyrir að áhorfendafjöldinn var meiri en 10.000 á leikjum íslenska landsliðsins.

Skemmst er að minnast 1-1 jafnteflisleiksins gegn Frakklandi árið 1998, þegar 12.004 áhorfendur sáu Ríkharð Daðason koma Íslandi yfir með einu frægasta skallamarki Íslandssögunnar.

Fjórum áður áður höfðu 14.361 stuðningsmaður safnast saman á landsleik Íslendinga og Svía í undankeppni EM, sem lauk með 0-1 sigri þeirra gulklæddu þrátt fyrir harða hríð Íslendinga að sænska markinu.

Árið 1986, voru 13.758 áhorfendur samankomnir á Laugardalsvellinum til að fylgjast með þáverandi Evrópumeisturum Frakka leika listir sínar. Þeim leik lyktaði með markalausu jafntefli.

Ári áður höfðu 15.052 áhorfendur fyllst hryllingi þegar þáverandi vonarstjarna Íslands, Sigurður Jónsson, var borinn sárþjáður af leikvelli eftir hrottalega tæklingu frá Graeme Souness í landsleik Íslands og Skotlands í undankeppni HM.
Þeim leik lyktaði með 0-1 sigri gestanna.

Til gamans má geta að 1. janúar það ár voru Íslendingar rúmlega 240 þúsund talsins en í dag er Íbúafjöldi landsins um 325 þúsund, sem samvarar fólksfjölgun upp á tæp 27%.

Það er því fullljóst að stærri Laugardalsvöllur mun standa undir sér. Leikvangur með sæti fyrir 15 – 16 þúsund manns mun fyllast þegar stórlið koma en líka þegar mikið verður undir sama hver andstæðingurinn verður eins og sannaðist í fyrra haust þegar uppselt var á leiki landsliðsins gegn Albaníu og Kýpur.

Að sjálfsögðu munu stúkunnar ekki alltaf vera þaulsetnar og stundum verður tómlegt um að litast í dalnum en þannig er raunin hjá flestum landsliðum. Það er staðreynd að stuðningurinn við landsliðið hér heima er mikill samanborið við mörg önnur landslið. Fara þarf aftur til ársins 1997 til að finna keppnislandsleik þar sem færri en 2.000 áhorfendur mættu á Laugardalsvöll.

Hjá mörgum mun stærri þjóðum eru áhorfendatölur undir 2.000 áhorfendum nánast árlegur viðburður, einkum þegar smáþjóðir koma í heimsókn eða þegar miklvægi leikjanna er ekkert.

Hvað er málið með Kýpur?
Kýpur er eiginlega stórskrýtið fyrirbæri þegar kemur að landsleikjum en kýpversku landsliðsmennirnir þurfa oftar en ekki að spila fyrir nánast tómum velli heimafyrir.

Íbúafjöldi Kýpur er ríflega 840 þúsund og spilar landsliðið á þjóðarleikvanginum, GSP Stadium, sem tekur 22,859 manns í sæti. Tímabilið 2006 – 2013 var sætanýting vallarins um 22%, þrátt fyrir að 15,444 áhorfendur hafi látið sjá sig á landsleik Kýpurs og Portúgal fyrir undankeppni EM 2012. Það dugði ekki til að hækka prósentutöluna því áhuginn fyrir landsliðinu er mjög takmarkaður.

Síðustu ár hefur stuðningur við landslið Kýpur farið dvínandi en hann er í sögulegri lægð um þessar mundir því í síðustu undankeppni nam sætanýtingin á þjóðarleikvanginum ekki nema 6,3%. Það þýðir að 617 hræður hefðu mætt að meðaltali á landsleiki Íslands á Laugardalsvellinum á sama tíma.

Það gerðist í tvígang undir lok síðustu undankeppni að áhorfendur voru undir þúsund á leikjum Kýpur, eða 714 gegn Slóveníu og 341 gegn Albaníu. Sláandi tölur hjá 840 þúsund manna þjóð en þrátt fyrir þetta eru uppi hugmyndir að byggja nýjan þjóðarleikvang í Nikósíu; Neos national stadium.

Gíbraltar mun brátt eignast stærri völl en Íslendingar
Kýpur er ekki eina þjóðin sem ætlar að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs því Albanía, Lúxemborg og Gíbraltar, nýjasti meðlimur UEFA, hafa ákveðið að nú sé kominn tími til breytinga. Auk þess vonast forráðamenn knattspyrnusambands Kosovo til þess að geta reist nýjan og stórglæsilegan leikvang innan fárra ára og þá standa yfir framkvæmdir við Windsor Park í Norður-Írlandi. Að þeim loknum mun sætafjöldinn á vellinum hafa aukist í 18.000 auk þess sem lappað verður upp á útlitið. Myndir af þessum leikvöngum er að finna hér til hliðar.

Allar þessar þjóðir eiga það sammerkt að vera með lélegri sætanýtingu en Laugardalsvöllurinn á keppnisleikjum en samt sem áður sjá þær tilgang í því að byggja nýja og stærri velli eða stækka við sig.

Þeir leikvangar sem landslið Albaníu og Lúxemborg spila heimaleikina á í dag þykja lítið til þess fallnir að halda merki knattspyrnunnar á lofti en líkt og Laugardalsvöllurinn er grasið umkringt hlaupabrautum hringinn í kringum völlinn.

Teikningar af nýjum leikvangi Gíbraltar eru glæsilegar og ljóst að mikið verður lagt í knattspyrnuna þar í landi á næstu árum. Áætlað er að leikvangurinn, sem mun bera nafnið Europa Point Stadium, muni taka 10.000 manns í sæti sem þýðir að þessi 30.000 manna þjóð mun eignast stærri þjóðarleikvang en Íslendingar.

Hversu löng bið?
Hér er ekki verið að þrýsta á knattspyrnuhreyfinguna eða stjórnvöld um stækkun Laugardalsvallar eða byggingu nýs leikvangs, heldur er tilgangurinn að sýna fram á hversu stuðningurinn við landsliðið er mikill og hversu óplægður akur er að finna hér.

Stærri Laugardalsvöllur mun standa undir sér án nokkurs vafa og stærri og sterkari heimavöllur mun einungis hjálpa landsliðunum öllum. Spurningin er bara sú hvenær ákvörðun verður tekin um frekari stækkun. Á meðan sitja margir áhangendur eftir með sárt ennið, miðalausir, á tímum þegar uppgangur landsliðsins er í sögulegri hæð.

Sætanýting frá 2006 – 2013.
Þýskaland, 95,3%
Spánn, 89,8%
Frakkland, 89,6%
England, 89%
Holland, 88,8
Skotland, 86,9%
Moldavía 85,6%
Tékkland, 83,3%
Ísland, 83%
Norður-Írland, 82,4%
Svíþjóð, 82,2%
Tyrkland, 79,4%
Portúgal, 78,6%
Sviss, 78,2%
Svartfjallaland, 77,7%
Úkraína, 76,7
Eistland, 73,3%
Írland, 72,9%
Rússland, 72,7%
Danmörk, 71,4%
Austurríki, 71% nýting
Slóvenía, 70,9%
Ítalía, 68,9%
Litháen, 67,5%
Belgía, 67,2%
Grikkland 67,1%
Bosnía, 67%
Noregur, 65,7%
Pólland, 65,5%
Lettland 65,1%
Georgía, 65,1%
Albanía, 65% nýting
Ísrael, 62,5%
Hvíta-Rússland 61,3%
Azerbaijan, 61%
Armenía, 60,9%
Króatía, 59%
Slóvakía, 58,1%
Kasakstan, 56,5%
Finnland, 54,4%
Lúxemborg, 53,2%
Ungverjaland, 51,3%
Færeyjar, 50,7%
Andorra, 46,4%
Serbía, 45,9%
Liechtenstein, 44,9%
Wales, 43,2%
Makedónía 42,3%
Búlgaría, 40,6%
Malta 40%
San Marínó, 29,7%
Kýpur, 22%

Fjöldi landsleikja, frá 2006 - 2013, með 90 – 100% sætanýtingu.
Þýskaland, 18
Moldavía, 14
Holland, 13
Frakkland, 12
Spánn, 12
Skotland, 12
England, 11
Tékkland, 10
Svíþjóð, 10
Rússland, 9
Ísland, 8
Danmörk, 8
Austurríki, 7
Portúgal, 7
Svartfjallaland, 6
Sviss, 6
Ítalía, 6
Eistland, 5
Georgía, 5
Lúxemborg, 5
Slóvenía, 5
Tyrkland, 5
Belgía, 4
Króatía, 4
Armenía, 4
Slóvakía, 4
Ísrael, 4
Litháen, 4
Albanía, 3
Azerbaijan, 3
Færeyjar, 3
Grikkland, 3
Írland, 3
Pólland, 3
Úkraína, 3
Ungverjaland, 2
Malta, 2
Serbía, 2
Kasakstan, 2
Búlgaría, 1
Bosnía, 1
Finnland, 1
Lettland, 1
Makedónía, 1
Wales, 1
Andorra, 0
Hvíta-Rússland, 0
Kýpur, 0
Noregur, 0
Liechtenstein, 0
San Marínó, 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner