Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 02. október 2014 16:10
Elvar Geir Magnússon
Kveðjuleikur Mumma á laugardag: Titillinn 2011 hápunktur
Guðmundur Reynir Gunnarsson.
Guðmundur Reynir Gunnarsson.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mummi í bikarúrslitaleiknum í sumar.
Mummi í bikarúrslitaleiknum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Mummi lék í fyrsta sinn fyrir KR í efstu deild 2006 og vakti strax athygli.
Mummi lék í fyrsta sinn fyrir KR í efstu deild 2006 og vakti strax athygli.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Guðmundur Reynir Gunnarsson, Mummi, ætlar að leggja skóna á hilluna eftir leik KR og Þórs í lokaumferðinni á laugardag. Þessi ákvörðun hefur komið mörgum á óvart enda er þessi hæfileikaríki maður aðeins 25 ára gamall og hefur verið lykilmaður hjá KR.

„Ég var búinn að ákveða þetta fyrir tímabilið, ég ætlaði að taka eitt kveðjutímabil og fara að einbeita mér að öðrum hlutum í stuttu máli," segir Mummi sem hefur einnig getið sér gott orð í tónlist og stærðfræði.

„Boltinn tekur meiri tíma og orku en margir gera sér grein fyrir. Ef ég ætlaði að gera eitthvað annað af alvöru fannst mér ég þurfa að taka mér hvíld frá boltanum. Svo sjáum við hvernig það mun ganga og hvernig ég mun „fíla" það. Svo er aldrei að vita hvort ég taki skóna aftur af hillunni. Sjáum hvað framtíðin ber skauti sér."

Misjöfn viðbrögð
„Það hafa verið misjöfn viðbrögð við þessari ákvörðun. Sumir skilja þetta fullomlega en aðrir ekki. Þannig vill það oft vera. Það er margt annað í lífinu en fótbolti þó vissulega sé fótbolti mjög skemmtilegur og hefur verið mjög stór hluti af mínu lífi hingað til, nú er bara annað í kortunum."

Guðmundur Reynir á þrjá vináttuleiki að baki fyrir A-landsliðið auk fjölmargra leikja fyrir yngri landsliðin. Þá lék hann um tíma sem atvinnumaður með GAIS í Svíþjóð og segist sáttur með það sem hann hefur gert hingað til.

En hvernig tók Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, því þegar hann heyrði af því að Mummi ætlaði að leggja skóna á hilluna? „Hann vildi halda mér og vildi að ég myndi halda áfram. En hann er mjög skilningsríkur maður og hann sagði að ef þetta væri mín ákvörðun þá myndi hann virða hana," segir Mummi.

Gott að geta kvatt með titli
Hann segir að fyrsti Íslandsmeistaratitillinn með KR standi upp úr þegar hann horfi á ferilinn. „Að verða Íslandsmeistari 2011 var mín stærsta stund í boltanum og skemmtilegasta. Allir titlarnir, landsliðið og það allt var mjög skemmtilegt ásamt því að spila úti."

KR varð bikarmeistari í sumar svo Mummi kveður með titli. „Það var gott að geta náð titli, það var markmiðið fyrir tímabilið."

Leikurinn á laugardaginn hefur ekki mikið vægi enda ljóst að KR mun enda í þriðja sætinu. „Þetta er síðasti leikurinn og það væri mjög gaman ef sem flestir gætu mætt á völlinn, gert upp sumarið og haft svo gaman um kvöldið."

Gary Martin gæti tekið gullskóinn
Mummi hefur spilað 163 leiki fyrir KR í deild og bikar og skorað átta mörk. Hans fyrsti leikur í efstu deild kom 2006. Hann hefur að mestu spilað sem bakvörður á ferlinum en einnig sem kantmaður.

Leikur KR og Þórs verður klukkan 13:30 á laugardag en Gary Martin, liðsfélagi Mumma, á möguleika á markakóngstitlinum. Englendingurinn skeinuhætti er tveimur mörkum á eftir Jonathan Glenn í ÍBV sem er markahæstur, Verður ekki lagt upp með að koma boltanum sem oftast á Martin?

„Hann vill það allavega örugglega. Hann er að spá í litlu öðru en því. Hann hefur trú á því að hann muni ná þessu. Hann er bjartsýnn maður og það gæti alveg verið. Það er möguleiki," segir Guðmundur Reynir að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner