Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 02. október 2017 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
KR vonast til að ganga frá þjálfaramálum í þessari viku
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Kristinn Kjærnested.
Kristinn Kjærnested.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
„Það er ekki komin niðurstaða hjá okkur, en við áætlum það að við verðum búnir að ganga frá málunum í þessari viku," sagði Kristinn Kjærnested, formaður KR, aðspurður út í þjálfaramál Vesturbæjarstórveldisins í dag.

Willum Þór Þórsson hætti eftir tímabilið og er á leið í kosningabaráttu með Framsóknarflokknum.

Rúnar Kristinsson, Arnar Grétarsson og Indriði Sigurðsson hafa verið orðaðir við starfið, en Rúnar er talinn líklegastur.

Kristinn vildi ekki gefa upp nein nöfn.

„Ég vil ekki tjá mig um það," sagði Kristinn aðspurður út í nöfn á blaði. „Ég get ekki tjáð mig um það annað en að þessi vinnsla er í fullum gangi og við væntum niðurstöðu í vikunni."

Ósáttur með gengi liðsins

KR-ingum tókst ekki að landa Evrópusæti í sumar og Kristinn er að sjálfsögðu ekki sáttur með það.

„Við erum ósáttir með árangurinn, það er ekkert leyndarmál, þetta var ekki okkur að skapi, hvorki stuðningsmönnum né leikmönnum eða öðrum sem standa að liðinu," segir hann.

„Það er svo sem ýmislegt sem gekk á, markmannsvandræði og meiðslin og þess háttar en samt sem áður fengum við ótal tækifæri til að tryggja okkur, hið minnsta Evrópusæti, en við unnum bara ekki nógu marga fótboltaleiki. Það er því miður þannig."

Leikmannamál unnin í samstarfi við nýjan þjálfara

Nokkrir af lykilmönnum KR eru að verða samningslausir, þar á meðal Pálmi Rafn Pálmason, Skúli Jón Friðgeirsson, Tobias Thomsen, Andre Bjerregaard og Óskar Örn Hauksson.

Leikmannamál KR verða unnin í samstarfi við nýjan þjálfara.

„Staðan er bara þannig að það eru þjálfari og þjálfarar sem taka ákvarðanir um leikmannaval hjá KR og þannig hefur það alltaf verið. Það er því mikilvægt fyrir okkur að fá niðurstöðu í það mál. Það er enginn annar sem tekur ákvörðun um það nema sá sem stýrir skútunni," sagði Kristinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner