Alfreð Elías Jóhannsson verður mögulega næsti aðstoðarþjálfari ÍBV en hann hefur átt í viðræðum við félagið.
„Bjarni (Jóhannsson) hefur eitthvað verið að ræða við hann," sagði Óskar Örn Ólafsson formaður knattspyrnudeildar ÍBV við Fótbolta.net í dag.
Alfreð hefur undanfarin fimm ár þjálfað Ægi í 2. deildinni en hann hætti störfum þar eftir tímabilið. Hann er hins vegar ennþá yfirþjálfari yngri flokka hjá Ægi í augnablikinu.
„Hann er í starfi í Þorlákshöfn og það eru margir endar sem þarf að binda á svona málum," sagði Óskar.
Áður en Alfreð tók við Ægi þjálfaði hann BÍ/Bolungarvík sumarið 2010 þegar liðið komst upp úr 2. deildinni.
Þar áður spilaði hann í fremstu víglínu með Grindavík, Njarðvík, Víkingi Ólafsvík, Sindra, GG og Stjörnunni.
Hjá Grindavík og Stjörnunni spilaði hann undir stjórn Bjarna Jóhannssonar sem þjálfar í dag lið ÍBV.
Athugasemdir