Heimild: Morgunblaðið
Rúnar Kristinsson þjálfari Lilleström er ánægður með árangur liðsins á afstaðinni leiktíð í norsku úrvalsdeildinni en liðið hafnaði í áttunda sæti. Rúnar er í löngu viðtali við Morgunblaðið í morgun þar sem hann tjáir sig meðal annars um erfitt vinnuumhverfi vegna fjárhagsvanda félagsins.
Lilleström er að reyna að greiða úr löngum skuldahala og gengur það vel að sögn Rúnars, þrátt fyrir að tekjumöguleikar hafi minnkað.
Tveir íslenskir leikmenn léku með Lilleström í sumar, miðjumaðurinn Finnur Orri Margeirsson og sóknarmaðurinn Árni Vilhjálmsson. Finnur er á förum frá liðinu.
„Finnur var mér mjög mikilvægur því hann var minn fyrirliði inni á vellinum þó svo hann hafi ekki borið fyrirliðabandið. Það var auðvelt fyrir mig að koma skilaboðum til hans inn á völlinn sem hann gat svo komið áfram til annarra leikmanna. Því miður var ekki hægt að bjóða Finni áframhaldandi samning," segir Rúnar í Morgunblaðinu.
Árni var að glíma við meiðsli á tímabilinu en komst af stað undir lokin og segir Rúnar að hann geti verið mikilvægur fyrir liðið næsta tímabil.
Rúnar segist fylgjast með íslenska markaðnum en vandamálið sé að Lilleström getur ekki keypt leikmenn frá Íslandi vegna fjárhagsstöðu sinnar.
„Meðan þetta ástand varir þá finnst mér hálf-glatað að geta ekki leitað til Íslands og keypt leikmenn. En svo er líka annað, að ég vil ekki vera með of marga Íslendinga. Ég vil ekki vera með nema í mesta lagi tvo," segir Rúnar en viðtalið má sjá í heild í Morgunblaðinu.
Athugasemdir