mið 03. janúar 2018 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Siggi Raggi við FIFA: Góðir þjálfarar geta komið hvaðan sem er
Mynd: Getty Images
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrum landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins og núverandi þjálfari kínverska kvennalandsliðsins, er í dag tekinn tali á vefsíðu FIFA.

Sigurður tók við kínverska landsliðinu undir lok síðasta árs eftir að hafa þjálfa kvennalið Jiangsu Suning þar í landi um nokkurt skeið með virkilega góðum árangri.

Að þjálfari frá fámennri eyju í Norður-Atlantshafi skuli þjálfa landslið hjá þjóð sem er sú fjölmennasta í heimi vekur vissulega athygli.

„Góðir þjálfarar geta komið hvaðan sem er, alveg eins og góðir leikmenn," sagði Siggi Raggi léttur í samtali við FIFA.

„Ísland er lítið land hvað varðar fólksfjölda en við erum langt frá því að vera lítil knattspyrnuþjóð. Bæði karla- og kvennalandslið okkar eru á meðal 20 bestu landsliða í heimi."

„Ég starfaði í 13 ár hjá knattspyrnusambandi Íslands og ég þjálfaði kvennalandsliðið í sjö ár. Ég er stoltur af hafa átt þátt í þessum uppgangi sem verið hefur á Íslandi."

Fyrstu leikirnir með Kína hafa ekki verið alveg eins og Sigurður hafði vonast til. Fyrstu fjórir leikirnir, tveir gegn Ástralíu og gegn Japan og Norður-Kóreu, töpuðust en síðasti leikurinn sem liðið spilaði á árinu 2017, gegn Suður Kóreu vannst 3-1.

Á þessu ári tekur Kína þátt í Asíumótinu. Liðið verður að spila vel þar sem með góðum árangri gæti það komist á HM sem fram fer í Frakklandi á næsta ári.

„Þú þarft að leyfa þér að dreyma stórt og leggja mikla vinnu á þig til þess að upp­fylla þá drauma. Þetta lið getur náð mjög langt," sagði Sigurður Ragnar að lokum.

Sjá einnig:
Siggi Raggi: Miklar kröfur á að ná árangri



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner