banner
   mið 03. janúar 2018 13:21
Elvar Geir Magnússon
Stuðningsmennirnir kjósa liðið sem mætir Íslandi
Icelandair
Áhugaverð leið sem indónesíska sambandið fer í val á byrjunarliði.
Áhugaverð leið sem indónesíska sambandið fer í val á byrjunarliði.
Mynd: pssi.org
Knattspyrnusamband Indónesíu fer áhugaverða leið til að velja leikmannahópinn sem mætir Íslandi í fyrri vináttulandsleik þjóðanna þann 11. janúar.

Stuðningsmenn eru hvattir til að velja sitt byrjunarlið á heimasíðu sambandsins en þeir 22 leikmenn sem fá flest atkvæði verða í indónesíska hópnum.

Kosningu lýkur á miðnætti annað kvöld.

Í seinni vináttulandsleiknum, sem verður 14. janúar, mun svo landsliðsþjálfarinn Luis Milla fá alveg frjálsar hendur. Indónesía er að undirbúa sig fyrir Asíuleikana á þessu ári þar sem U23 ára lið keppa svo búast má við ungu liði hjá heimamönnum.

Ekki er um alþjóðlega leikdaga að ræða og því er íslenski landsliðshópurinn að mestu skipaður leikmönnum sem spila á norðurlöndunum, þar sem frí er í deildunum.

Íslenski hópurinn flýgur út á föstudaginn en auk þess að spila þessa tvo vináttuleiki mun hann taka þátt í viðburðum á vegum indónesíska sambandsins samkvæmt heimasíðu þess.

Á síðunni kemur fram að Eiður Smári Guðjohnsen verði í Indónesíu í tengslum við leikina en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Fótbolta.net að Eiður yrði ekki þarna á vegum íslenska sambandsins.

Vináttulandsleikir Indónesíu og Íslands verða báðir klukkan 11:30 að íslenskum tíma og verða sýndir beint á RÚV.
Athugasemdir
banner
banner