Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með fyrstu gullverðlaun sín í starfinu en Kópavogsliðið vann 2-1 sigur gegn Stjörnunni í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins í kvöld. Fyrsti titill ársins fer því til Blika.
„Ég var mjög ánægður með sigurinn en ekki ánægður með frammistöðuna, sérstaklega í seinni hálfleik. Þá fannst mér Stjarnan miklu grimmari. Það var þó gott að koma til baka eftir að þeir jöfnuðu og það var mikilvægt að klára leikinn. Spilamennskan verður að vera betri ef við ætlum að gera eitthvað af viti í sumar," sagði Arnar eftir leik.
Hvert verður markmið Breiðabliks í sumar?
„Við förum í hvern einasta leik til að vinna. Ef þú gerir það þá hlýtur stefnan að vera að spila um eitthvað. Mér finnst það eðlileg krafa að vera í einhverju af efstu sætunum. Ég tel okkur vera með gæði og getu til að blanda okkur í toppbaráttuna."
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar talar Arnar meðal annars um að Breiðablik þurfi að fækka í æfingahópnum hjá sér.
Athugasemdir