þri 03. maí 2016 09:15
Magnús Már Einarsson
Donni: Stefnum að sjálfsögðu á að fara upp
Halldór Jón Sigurðsson.
Halldór Jón Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Þessi spá kemur mér ekkert á óvart, við enduðum í 4. sæti í fyrra og það er ekkert óeðlilegt við það að vera spáð í að vera á svipuðu róli," segir Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Þórs en liðinu er spáð 4. sæti í Inkasso-deildinni í sumar.

„Við erum með sterkari mannskap í ár og í raun ennþá sterkari liðsheild heldur en í fyrra þó hún hafi verið mjög góð þá. Þór er stórt félag með mikinn metnað og á að okkar mati heima í úrvalsdeild, svo að sjálfsögðu stefnum við á það að fara upp," sagði Donni sem býst við hörku toppbaráttu.

„Ég tel að deildin verði fáránlega skemmtileg í ár eins og í fyrra. Ég sé fyrir mér að það verði 6-7 lið að berjast um að fara upp og að þetta verði hnífjafnt fram i lokaumferð."

Þórsarar hafa nokkuð svipaðan hóp og í fyrra og Donni er ánægður með gengið á leikmannamarkaðinum.

„Það hefur gengið vel að styrkja hópinn. Við erum með mjög svipaðan hóp og í fyrra en þó fengið nokkra eðalmenn til liðs við okkur sem hafa komið sterkir inn og gefa okkur mikið."

„Svo höfum við einfaldlega mikið einbeitt okkur að því að styrkja þá sem fyrir voru og svo marga yngri leikmenn félagsins. Við eigum marga mjög svo efnilega unga leikmenn sem eru að banka fast á dyrnar og það er um að gera að ýta vel undir þá og hlúa að framtíðinni."


„Undirbúningstímabilið hefur gengið mjög vel og þau atriði sem við erum að vinna í hafa gengið að mestu frábærlega. Æfingaferðin var frábær og stemningin í hópnum og félaginu öllu er afbragðs góð."

Gísli Páll Helgason, bakvörður Þórs, var í aðgerð á mjöðm í síðustu viku og ljóst er að hann missir af byrjun móts.

„Það verður að koma í ljós hversu lengi Gísli verður frá en hann var í aðgerð í Bandaríkjunum á miðvikudaginn. Við vonum það besta í þessu enda Gísli einn albesti leikmaðurinn í deildinni, svo það er klárlega mikill missir af honum. Það er ljóst að hann missir af stórum hluta af fyrri umferðinni en við ætlum að vera bjartsýnir og vona það besta," sagði Donni.
Athugasemdir
banner
banner
banner