Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   sun 03. júlí 2016 22:38
Magnús Már Einarsson
Jón Daði: Tilfinningaþrungið í lokin
Icelandair
Jón Daði í leiknum í kvöld.
Jón Daði í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta eru blendnar tilfinningar. Það er stórkostlegt að ná svona langt en það er líka leiðinlegt að tapa svona stórt í dag," sagði Jón Daði Böðvarsson, framherji Íslands, við fjölmiðla eftir 5-2 tapið gegn Frökkum í kvöld.

„Við vitum að við getum betur en þetta. Það er ekkert í því að gera núna. við þurfum að læra af þessu fyrir næstu undankeppni."

Ísland var 4-0 undir í hálfleik í leiknum í dag. Hvað fannst Jóni Daða fara úrskeiðis í fyrri hálfleiknum?

„Giroud skorar þetta mark í byrjun og þeir fengu svakalega mikla orku við það. Mér fannst þeir ekki vera voða sannfærandi fyrstu 20 mínúturnar. Þeir fengu síðan þessa stungusendingu og þetta gefins annað mark," sagði Jón Daði en Paul Pogba skoraði annað mark Frakka með skalla eftir horn. Jón Daði var að dekka Pogba í markinu.

„Ég var með Pogba en hann kom svo hratt að það var erfitt að eiga við hann. Í 2-0 var þetta strax orðið erfitt. Þetta var smá hrun í fyrri hálfleik en síðari hálfleikur var allt annar."

„Það voru allir sjokkeraðir í fyrri hálfleik og með hökuna niðri. Þetta var spurning um að mæta með karakter í seinni hálfleik og vinna hann. Mér fannst við eiga fínan síðari hálfleik. Það er erfitt að koma til baka þegar þú ert 4-0 yfir en síðari hálfleikurinn er eitthvað sem menn geta verið stoltir af."

Jón Daði segir að hreyfanleikinn á íslenska liðinu hefði mátt vera betri í fyrri hálfleik.

„Við áttum að geta hreyft okkur aðeins meira upp á topp og gefa fleiri hlaup fyrir miðjumenn og varnarmenn. Það voru ekki bara sóknarmennirnir í fyrri hálfleiknum, það var allt liðið sem var ekki nógu gott."

Íslenskir stuðningsmenn létu vel í sér heyra allan leikinn og áfram eftir leikinn þegar leikmenn þökkuðu fyrir stuðninginn.

„Það var æðislegt. Þetta hefur verið þvílíkt ferðalag að spila fyrir framan svona marga Íslendinga sem syngja og tralla. Þetta var tilfinningaþrungið í lokin. Þegar maður horfir til baka þá er stutt síðan maður var að spila á Selfossi. Maður er núna að byrja sem framherji með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu og búinn skora mark. Það er gaman að upplifa svona," sagði Jón Daði.
Athugasemdir
banner