Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með að ná aðeins einu stigi úr heimaleiknum gegn Fylki í kvöld. Leikar enduðu 1-1.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 1 Fylkir
„Það hefur reynst okkur erfitt að spila gegn Fylki síðustu ár. Af 15 stigum síðustu ár höfum við fengið 3 stig. Fylkismenn eru þéttir og falla vel til baka og gera hlutina erfiða," segir Arnar.
Breiðablik komst yfir í leiknum.
„Við eigum að vera það góðir eftir að hafa komist yfir að við eigum ekki að fá mark á okkur. Það kom röð mistaka sem voru blóðug. Ég er drullufúll. Menn voru ekki alveg með hausinn rétt skrúfaðan á þegar Fylkir skorar og mörg atvik sem leiða að því."
„Við verðum að sækja þrjú stig í Víkina í næstu umferð ef við ætlum ekki að dragast aftur úr í þessari baráttu. Það verður helvíti erfitt."
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar talar Arnar meðal annars um slaka stigasöfnun liðsins á heimavelli.
Athugasemdir