Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   fim 03. ágúst 2017 11:23
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Höskuldur: Tók sinn toll á sínum tíma en var dýrmæt reynsla
Höskuldur verður 23 ára í næsta mánuði,
Höskuldur verður 23 ára í næsta mánuði,
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Höskuldur er fenginn til Halmstad til að hleypa meira lífi í sóknarleikinn.
Höskuldur er fenginn til Halmstad til að hleypa meira lífi í sóknarleikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldi finnst margt líkt með Halmstad og Breiðabliki.
Höskuldi finnst margt líkt með Halmstad og Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Örjans Vall í Halmstad.
Örjans Vall í Halmstad.
Mynd: Getty Images
Það er vika síðan Breiðablik tilkynnti að félagið hefði selt Höskuld Gunnlaugsson til Halmstad í Svíþjóð. Höskuldur er mættur í þennan fallega strandbæ og er spenntur fyrir verkefninu framundan.

Eins og oft í boltabransanum gerðust hlutirnir hratt. Skyndilega fékk Höskuldur að vita af áhuga Halmstad og ekki löngu síðar var hann mættur til Svíþjóðar.

„Ég var boðaður á fund hjá Breiðabliki og mér sagt að sænskt félag væri að fara að leggja inn tilboð samdægurs. Félögin náðu fljótlega samkomulagi. Forseti félagsins hringdi í mig á fimmtudagskvöldi og vildi fá mig strax út en svo var ákveðið af hálfu beggja aðila að ég færi út á sunnudeginum," segir Höskuldur í samtali við Fótbolta.net. „Ég fór í læknisskoðun og skrifaði undir á mánudaginn."

„Ég var með fókusinn heima þegar þetta kom upp og var ekkert að spá í atvinnumennsku. En það getur margt gerst í glugganum og þetta var í fyrsta lagi bara ánægjulegt. Ég er mjög sáttur við að þessi klúbbur hafi sýnt áhuga og mér líkar mjög vel hérna þessa fyrstu daga."

Redemption
Höskuldur var nálægt því að fara til Gautaborgar í Svíþjóð eftir tímabilið 2015 en það voru honum mikil vonbrigði þegar það féll niður á lokasprettinum. Hann viðurkennir að það sé þægileg tilfinning að vera mættur til Svíþjóðar núna eftir vonbrigðin fyrir tveimur árum.

„Ef ég ætti að finna eitthvað orð yfir þetta er það „redemption". Ég kann ekki að íslenska það en þannig er tilfinning. Þetta tók sinn toll á sínum tíma. Maður var yngri og það var svo stórt fyrir mann að missa þetta þá. Ég er síðan ánægður með að hafa gengið í gegnum þá reynslu í kjölfarið. Maður er kominn þangað sem manni var örugglega ætlað."

Sænskt Breiðablik
Halmstad er gamalgróinn klúbbur í Svíþjóð með langa sögu. Hann hefur fjórum sinnum fagnað Svíþjóðarmeistaratitli, síðast árið 2000.

„Þetta er flott félag. Mín fyrstu kynni við liðsfélaga og fólkið í kring er að þetta er ekkert ósvipað Breiðabliki. Félagið hefur góða yngri flokka, þetta er frekar ungt lið með reynslubolta inni á milli, það eru margir heimamenn og þetta er mikill fjölskylduklúbbur. Allir taka vel á móti manni," segir Höskuldur.

Tímabilið hjá Halmstad hefur verið undir væntingum. Liðið er í fallsæti í sænsku úrvalsdeildinni, fimm stigum frá öruggu sæti þegar þrettán umferðir eru eftir. Liðið hefur skorað fæst mörk allra í deildinni en vonast er til að Höskuldur hleypi meira lífi í sóknarleikinn.

„Maður hefur ekki alveg púlsinn á því hvernig menn líta á þá baráttu sem er framundan. En maður finnur að það er stemning í hópnum. Þetta er metnaðarfullur og flottur þjálfari. Það tala allir vel um hann. Svo höfum við mjög öflugan sjúkra- og styrktarþjálfara sem er einn sá eftirsóttasti í Svíþjóð og leikmenn alls staðar að koma til hans í meðhöndlun. Umgjörðin og allt er í toppmálum. Ég hef farið á eina fótboltaæfingu og það er flott tempó og góðir leikmenn. Það er ekkert þungt yfir klúbbnum og leikmönnunum. Ég tel að það sé bjartsýni á að taka seinni umferðina með stæl."

Fenginn til að breyta einhverju
Þegar Fótbolti.net ræddi við Höskuld í gær átti eftir að fá einhverja pappírsvinnu í gegn svo hann yrði löglegur í næsta leik sem er gegn Jönköpings Södra á laugardag.

„Þetta hefur verið að fara fram og til baka milli sænska sambandsins og KSÍ. Vonandi klárast það. Ég er búinn að tala við þjálfarann og forsetann og það eru gerðar væntingar til manns sem er jákvætt. Bæði þjálfarinn og forsetinn höfðu áhuga á mér sem er gott. Þjálfarinn sér mig líklegast sem vinstri kantmann, sem er mín uppáhalds staða. Ég er fenginn hingað til að breyta einhverju, hafa einhver áhrif fram á við. Ég býst við að fá að spreyta mig," segir Höskuldur.

Halmstad er sumardvalarstaður Svía enda strandbær með suðrænu ívafi. Höskuldi líst vel á nýja heimabæinn og leikvanginn, Örjans Vall, sem er af gamla skólanum.

„Þetta er eldgamall völlur en mjög rómantískur. Það er skemmtileg gryfjustemning sem einkennir hann. Hann er við flotta á sem rennur þvert í gegnum bæinn, Nissan ánna. Það er mjög sjarmerandi umhverfi kringum völlinn og æfingasvæðið. Það búa um 100 þúsund í bænum en núna eru um 300 þúsund í honum, þetta er vinsæll sumarstaður hjá Svíunum."

Höskuldur ætlar að sjálfsögðu að fylgjast vel með baráttu Breiðabliks á lokasprettinum. Blikar vonast til að ná Evrópusæti.

„Ég horfði á leikinn gegn Fjölni og það var gaman að sjá Kiddann (Kristinn Jónsson) í mínu númeri (7). Hann var flottur og liðið leit mjög vel út. Sigurinn var sanngjarn. Mér finnst frammistaðan hafa verið góð, við höfum verið sóknarsinnaðir og skapað heilan helling. Úrslitin hafa ekki alveg verið að fylgja en hafa komið í síðustu tveimur leikjum. Gæðin í liðinu eru það mikil að það á alltaf að vera í Evrópusæti," segir Höskuldur Gunnlaugsson að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner