Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 03. september 2015 10:00
Magnús Már Einarsson
Amsterdam
Eiður Smári: Þetta er allt annar heimur
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Eiður Smári Guðjohnsen samdi í sumar við kínverska félagið Shijiazhuang Ever Bright. Hann segir að dvölin í Kína hafi komið skemmtilega á óvart hingað til.

„Þetta er allt annar heimur. Það er margt skrýtið og margt skemmtilegt. Þetta er mikið ævintýri. Ég er ánægður með æfingarnar og það er aðalatriðið. Hraðinn í leikjunum getur verið aðeins lægri en í Evrópu en það er mikið út af hitastiginu. Það er mikill hiti og raki og það fer mikil orka í leikina. Heilt yfir hefur þetta komið skemmtilega á óvart," sagði Eiður við Fótbolta.net í dag en hann kann vel við sig í Kína.

„Ég hef alltaf verið nokkuð hrifinn af kínverskum mat en kannski ekki á hverjum degi. Það er allt gert til að við Evrópubúarnir náum að aðlagast. Við erum með sérstakan matseðil, það er haldið vel utan um allar okkar þarfir og það er túlkur alltaf til staðar. Þjálfarateymið er frá Búlgaríu og veit hvernig á að snúa sér í hinum og þessum aðstæðum. Æfingarnar fara mest megnis fram á ensku og túlkarnir eru meira til staða fyrir Kínverjana á þeim tímapunkti."

Fótboltaáhuginn er mikill í Kína og Eiður vekur athygli hjá almenningi út á götu.

„Það getur orðið múgæsingur þegar einn fattar hver maður er. Þá rífa allir upp símana. Það fylgir þessu. Það muna margir eftir mér frá því í Chelsea og Barcelona. Þegar maður er stór og ljóshærður maður úti á götu í Kína þá er maður svolítið áberandi," sagði Eiður brosandi.

Eiður gerði samning við Shijiazhuang Ever Bright fram í nóvember en þá klárast tímabilið í Kína Hvað tekur við þá?

„Ég er farinn að spá í því en ekkert alvarlega. Þetta mun líka haldast í hendur við það hvernig hlutirnir þróast í kringum landsliðið. Ég reyni að klára tímabilið í Kína eins vel og hægt er og spila sem flesta leiki. Síðan sjáum við til hvort áframhaldið verður þar eða einhversstaðar annarsstaðar," sagði Eiður.

Smelltu hér til að sjá ítarlegt viðtal við Eið Smára
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner