fim 03. september 2015 20:38
Ívan Guðjón Baldursson
Með annan fótinn á EM eftir sögulegan sigur í Hollandi
Icelandair
Íslendingar fagna sigrinum í leikslok.
Íslendingar fagna sigrinum í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Holland 0 - 1 Ísland
0-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('51, víti)
Rautt spjald: Bruno Martins Indi, Holland ('33)

Íslenska landsliðið er komið með annan fótinn á EM eftir sögulegan sigur gegn Hollendingum á Amsterdam Arena.

Íslenska landsliðið átti glæsilegan leik, fékk góð færi og gaf fá færi á sér en þegar það gerðist var Hannes Þór Halldórsson öruggur í markinu.

Hollendingar héldu boltanum vel og áttu mörg skot í leiknum en þau voru flest hættulítil á meðan fá skot Íslendinga voru talsvert hættulegri, þar sem Jón Daði Böðvarsson var hársbreidd frá því að skora í upphafi leiks og Jóhann Berg Guðmundsson átti svo skot í stöng.

Arjen Robben var skipt af velli snemma vegna meiðsla og skömmu síðar fékk Bruno Martins Indi rautt spjald fyrir að slá Kolbein Þór Sigþórsson í andlitið með handleggnum.

Birkir Bjarnason gerði vel að fá vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik þar sem Gregory van der Wiel tæklaði hann innan teigs. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr vítaspyrnunni.

Hollendingar sóttu stíft á lokakaflanum en íslenska vörnin var skipulögð og hélt markinu hreinu.

Lokatölur sögulegur 1-0 sigur Íslands, sem þarf aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sig á lokakeppni EM í Frakklandi.
Athugasemdir
banner
banner