Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 03. október 2017 07:30
Hafliði Breiðfjörð
Efnilegust 2017: Markmiðið að gera betur
Agla María fagnar með Stjörnunni í sumar.
Agla María fagnar með Stjörnunni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Tímabilið hefur verið upp og niður og við aldrei almennilega náð okkur á strik.''
,,Tímabilið hefur verið upp og niður og við aldrei almennilega náð okkur á strik.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María Albertsdóttir var valin efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar kvenna af Fótbolta.net en hún hefur vakið mikla athygli með liði Stjörnunnar þar sem hún skoraði 6 leikjum í 17 deildarleikjum í sumar auk þriggja marka í Borgunarbikarnum.

„Sumarið hefur að mínu mati gengið vel hjá mér persónulega þegar yfir heildina er litið. Maður getur þó alltaf gert betur og markmiðið er að gera betur á næsta ári," sagði Agla María við Fótbolta.net.

Gengi Stjörnunnar var undir væntingum í sumar, 11 stig frá Íslandsmeisturum Þór/KA og 4. sæti var niðurstaðan í lok móts. Við spurðum Öglu Maríu út í tímabilið.

„Gengi okkar var klárlega undir væntingum í sumar. Hér í Garðabænum er stefnan alltaf sett á að vinna titla og því mikil vonbrigði að lenda í 4.sæti í deildinni," sagði hún.

„Tímabilið hefur verið upp og niður og við aldrei almennilega náð okkur á strik. Þetta hefur verið svolítið stöngin út hjá okkur í sumar. Við erum hins vegar staðráðnar í að gera það sem þarf til að ná í bikar 2018."

Þó svo Agla María hafi hafið meistaraflokksferil sinn hjá Val með þátttöku í átta leikjum sumarið 2015 vakti hún fyrst mikla athygli fyrir tímabilið í fyrra þegar hún var gengin í raðir Stjörnunnar og festi sig strax í sessi þar.

„Ég æfði að sjálfsögðu vel yfir veturinn. Við vorum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og því hver leikur úrslitaleikur fyrir okkur. Þetta hvatti mann til að leggja enn meira á sig og festa sig í sessi í liðinu," sagði hún.

Árið 2017 varð svo stórt hjá henni því hún var í fyrsta sinn valin í íslenska landsliðið í apríl og spilaði alla átta leiki landsliðsins sem eftir voru af árinu, auk þess að vinna sér sæti í byrjunarliðinu á EM.

„Það var mikil reynsla að spila þessa leiki á EM og auðvitað hefur maður alltaf stefnt þangað," sagði Agla María en hvernig sér hún fyrir sér næstu ár. Verður hún áfram í Stjörnunni eða er hún farin að hugsa út fyrir landsteinana?

„Ég tel mig geta bætt mig mikið hérna heima og geri ráð fyrir að vera áfram hjá Stjörnunni. Það kemur að því að maður fari út einhvertíman," sagði hún.

Framundan eru mjög erfiðir leikir hjá Öglu Maríu með félagsliði og landsliði. Stjarnan mætir liði Rossiyanka frá Rússlandi í Meistaradeildinni á fimmtudaginn og miðvikudaginn í næstu viku. Í kjölfarið koma svo landsleikir gegn einu besta kvennaliði heims Þýskalandi og svo Tékkum ytra.

Ég er mjög spennt að fara að spila við Rossiyanka og tel okkur eiga möguleika á úrslitum út úr þessum leikjum. Hvatningin fyrir leikina verður ekki mikið meiri þar sem Stjarnan hefur ekki áður komist í 16-liða úrslit og tímabilið hjá okkur myndi lengjast enn frekar. Hvað landsliðið varðar verður þetta virkilega krefjandi verkefni sem verður spennandi að taka þátt í."
Athugasemdir
banner
banner