þri 03. október 2017 09:45
Elvar Geir Magnússon
Antalya
Svona er staðan á landsliðsmönnunum okkar fyrir Tyrkjaleikinn
Icelandair
Kári hefur leikið vel fyrir Aberdeen.
Kári hefur leikið vel fyrir Aberdeen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Björgvin er í kuldanum hjá Bristol.
Hörður Björgvin er í kuldanum hjá Bristol.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar með Everton.
Gylfi hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar með Everton.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jói Berg hefur byrjað flesta leiki Burnley.
Jói Berg hefur byrjað flesta leiki Burnley.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Ólafur Ingi Skúlason leikur í Tyrklandi.
Ólafur Ingi Skúlason leikur í Tyrklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Bergmann er meðal bestu leikmanna norsku deildarinnar.
Björn Bergmann er meðal bestu leikmanna norsku deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Strákarnir okkar halda áfram að berjast um að komast á HM í Rússlandi. Nú eru bara tvær umferðir eftir af riðlinum og framundan leikir gegn Tyrklandi og Kosóvó. Tyrkir verða andstæðingar okkar ytra á föstudaginn.

Hér má sjá létta yfirferð yfir það hvernig leikmönnum hópsins er að vegna með félagsliðum sínum.

Markmenn:

Hannes Þór Halldórsson (Randers FC)
Aðalmarkvörður Randers en liðið hefur verið á afturfótunum og vermir neðsta sæti dönsku úrvalsdeildinni. Markaskorun er helsta vandamál liðsins, markatalan er 7-15 eftir ellefu leiki. Hannesi verður ekki haggað úr sæti aðalmarkvarðar landsliðsins enda spilar hann alltaf vel í landsliðsbúningnum.

Ögmundur Kristinsson (Excelsior)
Yfirgaf Hammarby þar sem hann var í kuldanum. Fer vel af stað fyrir nýja vinnuveitendur í Hollandi. Hefur fengið lof fyrir frammistöðu sína með Excelsior sem er í 13. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.

Rúnar Alex Rúnarsson (Nordsjælland)
Hefur ítrekað sýnt frábæra frammistöðu með Nordsjælland sem trónir á toppi dönsku deildarinnar. Var góður en hefur tekið miklum framförum og er að þróast í geggjaðan markvörð.

Varnarmenn:

Birkir Már Sævarsson (Hammarby)
Þessi áreiðanlegi leikmaður er fastamaður í hægri bakverði Hammarby sem siglir lygnan sjó um miðja deild í Svíþjóð. Fer frá Hammarby eftir tímabilið en óvíst er hvert næsta skref verður.

Ragnar Sigurðsson (Rubin Kazan)
Er í byrjunarliði Rubin Kazan í þriggja hafsenta kerfi. Liðið er um miðja deild í Rússlandi og hélt hreinu í 2-0 sigri um liðna helgi. Ragnar er öruggur með byrjunarliðssæti hjá landsliðinu.

Kári Árnason (Aberdeen)
Hefur verið á virkilega góðu róli með Aberdeen í skosku úrvalsdeildinni og fengið mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína. Liðið er jafnt Celtic að stigum á toppi skosku úrvalsdeildarinnar. Kári var á bekknum í síðasta landsleik og spurning hvort hann eða Sverrir byrji gegn Tyrkjum.

Ari Freyr Skúlason (Lokeren)
Byrjunarliðsmaður í vinstri bakverði Lokeren sem hefur sýnt misjafna frammistöðu í upphafi tímabils og er í níunda sæti belgísku deildarinnar.

Sverrir Ingi Ingason (Rostov)
Byrjunarliðsmaður hjá Rostov sem er í sjöunda sæti rússnesku deildarinnar eftir tólf umferðir. Öflugur varnarleikur er aðalsmerki liðsins og þar er Sverrir lykilmaður. Byrjaði sigurleik Íslands gegn Úkrainu og er líklegur til að byrja gegn Tyrkjum.

Hörður Björgvin Magnússon (Bristol City)
Þrátt fyrir frábæra frammistöðu með landsliðinu er Hörður áfram úti í kuldanum hjá enska B-deildarliðinu Bristol City. Bristol hefur reyndar vegnað vel þó það hafi ekki nýtt hæfileika Harðar og situr liðið í fjórða sæti. Hörður hlýtur að hugsa sér til hreyfings í janúarglugganum.

Hjörtur Hermannsson (Bröndby)
Byrjunarliðsmaður í hjarta varnar Bröndby sem er í þriðja sæti í dönsku deildinni eftir ellefu umferðir.

Jón Guðni Fjóluson (Norrköping)
Lykilmaður í vörn Norrköping sem hefur verið að klífa upp sænsku deildina og er í fjórða sæti.

Miðjumenn:

Aron Einar Gunnarsson (Cardiff)
Í stóru hlutverki hjá Cardiff sem hefur farið frábærlega af stað í Championship-deildinni og er á toppnum eftir ellefu umferðir. Aron spilaði ekki síðasta leik vegna meiðsla og er tæpur fyrir Tyrkjaleikinn. Íslenska þjóðin krossleggur fingur.

Emil Hallfreðsson (Udinese)
Í banni gegn Tyrkjum - Lék verulega vel gegn Úkraínu en tekur út leikbann gegn Tyrklandi. Verður vonandi með gegn Kosóvó eftir viku þrátt fyrir fjarveru í síðasta leik Udinese á Ítalíu vegna meiðsla.

Gylfi Þór Sigurðsson (Everton)
Á enn eftir að sýna sínar bestu hliðar síðan hann gekk í raðir Everton. Spilar flestar mínútur hjá liðinu en það hefur farið illa af stað á tímabilinu og er rétt fyrir ofan fallsætin.

Birkir Bjarnason (Aston Villa)
Hefur ekki sýnt nægilega góða frammistöðu til að festa sæti sitt í liði Aston Villa og mikið verið geymdur á bekknum. Var ónotaður varamaður í síðasta leik.

Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
Hefur byrjað flesta leiki Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Ekki mikið látið að sér kveða og var ónotaður varamaður í sigri gegn Everton um liðna helgi. Burnley er í sjötta sæti.

Ólafur Ingi Skúlason (Karabukspor)
Hefur ekki spilað mjög margar mínútur með tyrkneska liðinu en var í byrjunarliðinu gegn Galatasaray í síðasta leik og lék fyrstu 76 mínúturnar. Gæti fengið fleiri mínútur en venjulega í landsleiknum gegn Tyrklandi vegna leikbanns Emils og meiðsla á miðsvæðinu.

Arnór Ingvi Traustason (AEK Aþena)
Er enn í því ferli að reyna að koma sér í stærra hlutverk í Grikklandi. Er geymdur á bekknum en fær stundum mínútur í lokin. Kom inn á 70. mínútu um liðna helgi. Liðið trónir á toppi deildarinnar.

Rúnar Már Sigurjónsson (Grasshopper)
Byrjunarliðsmaður hjá Grasshopper í svissnesku úrvalsdeildinni. Hefur verið að finna sig virkilega vel en liðið situr í fimmta sæti.

Rúrik Gíslason (Nurnberg)
Virðist vera í frystikistunni hjá Nurnberg og verið utan hóps hjá þýska B-deildarliðinu að undanförnu. Nurnberg er í fimmta sæti en spurning hvort Rúrik reyni að færa sig um set í janúar.

Arnór Smárason (Hammarby)
Mættur aftur í landsliðshópinn. Byrjunarliðsmaður hjá Hammarby sem situr í níunda sæti sænsku deildarinnar.

Sóknarmenn:

Alfreð Finnbogason (Augsburg)
Byrjunarliðsmaður í hinni gríðarlega sterku þýsku úrvalsdeild. Er kominn með fjögur mörk í sjö leikjum, þar af komu þrjú gegn Köln.

Jón Daði Böðvarsson (Reading)
Hefur staðið sig með ágætum í byrjun hjá Reading þrátt fyrir að vera ekki búinn að negla fast sæti í byrjunarliðinu. Er þó við liðið og er kominn með tvö mörk.

Björn Bergmann Sigurðarson (Molde)
Er á óskalista stærri félaga eftir frábært tímabil með Molde. Er þriðji markahæsti leikmaður norsku deildarinnar og er í öðru sæti í einkunnagjöf Verdens Gang í deildinni. Molde situr í þriðja sæti.

Viðar Örn Kjartansson (Maccabi Tel Aviv)
Markahrókurinn mikli er með þrjú mörk í sex leikjum í ísraelsku deildinni. Liðið hefur hlotið ellefu stig. Í Evrópudeildinni er liðið með eitt stig eftir tvo leiki í sínum riðli en þar er Viðar ekki kominn á blað.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner