mið 03. desember 2014 10:00
Óli Stefán Flóventsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af hverju er Arsene Wenger minn maður?
Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Arsene Wenger hefur verið stjóri Arsenal frá því árið 1996.
Arsene Wenger hefur verið stjóri Arsenal frá því árið 1996.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ég hef verið Arsenal maður frá því að frændi minn gaf mér Arsenal handklæði 1982 en þá var ég sjö ára gamall. Allar götur síðan hef ég fylgst vel með með liðinu vaxa og dafna. Ég veit t.d eins og flestir Arsenalmenn, nákvæmlega hvað ég var að gera 26.maí 1989 þegar Michael Thomas tryggði Arsenal meistaratitlinn með marki á lokamínútunni á móti Liverpool á Anfield.

Arsenal spilaði þá undir stjórn hins skoska George Graham. Þá var liðið byggt á gríðarlega sterkum og öguðum varnarleik en margir kölluðu það lið samt sem áður „Boring Boring Arsenal“ og þeir töluðu einnig um að flóðljósin á Higbury þyrftu að lýsa upp því boltinn var mest í loftinu.

Það var síðan sjö árum eftir að við urðum meistarar 1989 að Arsenal réði til sín svo til óþekktan franskan snilling að nafni Arsene Wenger. Arsene var fljótur að láta taka til sín með áherslum sem voru nýjar í enskum fótbolta. Hann kom inn með lífstílsbreytingar á leikmenn, og algjörlega nýja taktík þar sem bolta var haldið innan liðsins með miklu flæði og sóknarleikurinn gjörbreyttist. Það var fljótlega tekið eftir þvi hversu gríðarlega gott og skemmtilegt lið Arsenal var að verða.

Það leið ekki á löngu þar til titlar voru komnir í hús og lífið lék við okkur Arsenal menn. Wenger hafði á þessum tíma orð á sér fyrir að vera mjög sniðugur í leikmanna kaupum þar sem leikmenn sem komu ódýrt, blómstruðu og nokkuð margir af þeim urðu með bestu leikmönnum í heimi en það nægir að nefna þá Viera, Henry og Fabregas í því samhengi. Hátindinum var svo náð 2004 þegar að liðið hans Wengers fór í gegnum heilt tímabil í ensku úrvalsdeildinni ósigrað. Það er afrek sem verður seint slegið.

Eftir það tímabil voru miklar breytingar í vændum. Á þessum tíma kom inn í enska boltann náungi að nafni Roman Abramovich og með ótakmarkað fjármagn og keypti miðlungslið Chelsea. Á eftir fylgdu fleiri milljónerar með sínar milljónir. Með þessu ótakmarkaða fjármagni mengaðist fótboltaheimurinn og leikurinn fór að snúast um eitthvað allt annað en faglega uppbyggingu. Verð á leikmönnum fór fram úr öllu hófi og leikmenn fóru að elta gullið.

Á þessum sama tíma fór Arsenal í það færa sig af gamla góða Higbury á nýjan og glæsilegan leikvang sem fékk nafnið Emirates stadium. Þessi völlur var ekki ókepis en einhverjar tölur segja að hann hafi kostað 600 miljónir punda. Þarna þurfti ábyrgur klúbbur að vinna eftir fjárhagsplani til þess að velta ekki skipinu. Arsene Wenger sem er menntaður í verkfræði og með meistaragráðu í hagfræði fór í gegnum sjö ár þar sem hann þurfti að selja bestu leikmenn sína og kaupa lítið í staðinn. Á þessum sjö árum skilaði karlinn liðinu samt alltaf í meistaradeildina þar sem aukatekjur komu og liðið var alltaf upp að vissu marki samkeppnishæft. Á þessum tíma hefur Wenger þurft að taka við gagnrýni frá örtstækkandi hóp sem var vant góðu gengi liðs sem Wenger smíðaði frá grunni.

Eftir að hafa nánast borgað upp völlinn árið 2013 fór Wenger að reyna að byggja upp lið sem gæti unnið deildina á ný. Á því tímabili komumst við ansi nærri því en eftir að hafa verið á toppnum lengst af tímabilsins fataðist okkur flugið á endasprettinum.

Nú hefur þetta tímabil hefur ekki byrjað sem skildi og úrslitin ekki verið að falla með okkur. Þegar að illa gengur þá minnkar þolinmæðin hjá ansi mörgum og raddirnar sem vilja höfuð Wengers eru sífellt að verða háværari. Þeir sem eitt sinn elskuðu karlinn, hata hann margir hverjir í dag. Við „Wengerssinnuðu“ Nallar reynum að verja karlinn. Þó það kæmi ný stjóri þá er það síður en svo þannig að það sé öruggt að við vinnum deildina með þann stjóra í brúnni eða áskrift á árangur. Það gæti meira að segja farið svo að liðið myndi spila verr og fara neðar í töflunni. Það er hægt að benda á Tottenham og Liverpool í því dæmi. Meira að segja fataðist United flugið þegar að Sir Alex hætti. Mér finnst karlinn vera búinn að gera það mikið fyrir félagið og ávinna sér þá virðinu að hann hreinlega ráði því hvenær hann vilji hætta, rétt eins og Ferguson hjá United.

Wenger er ekki yfir gagnrýni hafinn og þó ég sé einn af dyggustu Wengersmönnum þá á ég erfitt með að skilja hvað klikkaði í innkaupum á varnarmönnum og varnarmiðjumanni. Það er bara svo ótrúlega oft að þegar maður skilur ekki eitthvað sem karlinn gerir þá kemur út einhvert snilldarsvar fljólega sem útskýrir það sem ég ekki skildi. Ætli það komi ekki von bráðar hafsentar og varnarmiðjumaður úr akademíunni sem hann er að bíða eftir.

Eftir sem áður styð ég karlinn út í gegn. Ég vona að hann styrki varnarlínuna í janúarglugganum og haldi áfram að þróa liðið í þá átt að við getum verið stolt af. Einn daginn nenna þessir milljónerer ekki lengur að leika sér í „raunveruleika Championship manager“ og þá stendur eftir klúbbur sem rekinn hefur verið af ábyrgð og hagsýni ásamt gildum sem standa fyrir heiðarleika og réttsýni. Klúbbur sem Arsene Wenger hefur haldið utan um í gegnum ólgusjó á tímum þar sem peningar og græðgi ráða ríkjum, klúbbur sem heitir ARSENAL.
Athugasemdir
banner
banner