Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 04. febrúar 2016 21:11
Ívan Guðjón Baldursson
Þjálfari Shakhtar: Erum búnir að selja Teixeira til Kína
Mynd: Getty Images
Alex Teixeira er á leið frá Shakhtar Donetsk til Jiangsu Suning í kínversku deildinni fyrir 50 milljónir evra, eða um 38 milljónir punda.

Liverpool er því búið að missa af brasilíska sóknartengiliðnum sem var sterklega orðaður við félagið í janúar.

„Það er satt, við erum búnir að selja hann til Kína," sagði Mircea Luscescu, þjálfari Shakhtar, samkvæmt franska miðlinum L'Equipe.

Teixeira verður því dýrasti leikmaðurinn til að koma í kínversku deildina, aðeins nokkrum dögum eftir að Jackson Martinez var keyptur til Guangzhou Evergrande fyrir 32 milljónir punda.

Úkraínska félagið vildi halda Teixeira, sem hefur gert 67 mörk í 146 deildarleikjum, út tímabilið en gat ekki hafnað þessu himinháa tilboði.

Talið er að Teixeira fái um 10 milljónir evra í árslaun hjá Jiangsu, sem gerir hann að tíunda launahæsta leikmanni veraldar.

Jiangsu Suning verður með sterka miðju á næsta tímabili, en auk Teixeira er Ramires kominn til liðsins frá Chelsea fyrir 25 milljónir punda.

Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen voru leikmenn Jiangsu á síðasta tímabili, þar sem liðinu tókst að vinna kínverska bikarinn.

Viðar er nú leikmaður Malmö í Svíþjóð og Sölvi er kominn til Wuhan Zall í kínversku B-deildinni.
Athugasemdir
banner
banner