Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 04. maí 2016 11:00
Elvar Geir Magnússon
Álitsgjafar svara - „Stærra en afrek Grikklands"
Hversu stórt er afrek Leicester?
Gríðarlega ánægðir stuðningsmenn.
Gríðarlega ánægðir stuðningsmenn.
Mynd: Getty Images
Það er þjóðhátíðarstemning í Leicester.
Það er þjóðhátíðarstemning í Leicester.
Mynd: Getty Images
Ótrúlegt tímabil.
Ótrúlegt tímabil.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net fékk vel valda álitsgjafa til að svara þremur spurningum varðandi enska boltann. Við byrjum á að skoða það afrek Leicester að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og spurðum einfaldlega hversu stórt þetta afrek væri?



Hjörtur Hjartarson, Akraborginni:
Án þess að gerast of dramatískur tel ég Englandsmeistaratitilinn hjá Leicester vera á meðal stærstu afreka íþróttasögunnar, sama í hvaða íþrótt er til umræðu. Ég á í raun erfitt með að finna eitthvað sambærilegt, það fölnar eiginlega allt í samanburði. Sigur Dana á EM ´92 og Grikkja 2004 kemur upp í hugann en þar gengur allt upp í 2 vikur og slíkt getur alltaf gerst. Leicester vinnur mót sem stendur yfir í 9 mánuði. Svo þegar maður horfir til þess að liðið var hársbreidd frá því að falla á síðustu leiktíð verður þetta allt enn merkilegra.

Benedikt Bóas Hinriksson, Morgunblaðinu:
Endalaust. Það er ekki hægt að ná utan um það. Hef séð nokkra leiki með Leicester í vetur og þeir hafa unnið þá sannfærandi, þannig ekki var þetta heppni heldur geta. Og hvernig getur Robert Huth allt í einu orðið stórkostlegur miðvörður? Og Danny Simpson? Og og og? Það er hægt að telja alla upp. Þetta er of mikið og of óraunverulegt.

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins:
Stórkostlega mikið afrek, uppskera frábærrar vinnu hjá samheldnu félagi. Gefur íþróttasamfélaginu von um að grunngildin séu ennþá þau mikilvægustu í íþróttum. Vinnusemi, liðsheild og samtakamáttur allra aðila í þeirri von um að ná árangri.

Þórður Helgi Þórðarson, Doddi litli á Rás 2:
Stærsta afrek knattspyrnusögunar síðan ég man eftir mér, Grikkland er þarna einhversstaðar en þeir voru bara svo „fokk boring". Ég elska refi.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Leiknis:
Auðvitað er afrekið mjög stórt. Ríkustu liðin hafa einokað titlinn hingað til en þó má ekki gleyma því að Leicester er í eigu stóreignarmanna sem hafa sett risafjárhæðir í liðið. Lykillinn að titlinum er þekking starfsfólksins hjá félaginu.

Einar Örn Jónsson, RÚV:
Gríðarstórt. Maður hefur séð samlíkingar við Grikkland 2004 og Kaiserslautern 1998 en þetta er stærra en það. Grikkir spiluðu leiðindabolta og þó Kaiserslautern hafi verið nýliðar þá voru þeir stór klúbbur með sögu. Leicester vinnur þetta á flottum bolta, án nokkurrar sögu að ráði og hafa heillað heimsbyggðina. Þetta verður líklega ekki toppað, alla vega ekki á okkar ævi.

Tómas Ingi Tómasson, aðstoðarþjálfari U21 landsliðsins:
Afrek Leicester er það stæðasta á síðustu 20 árum í boltanum a.m.k. Það sem mér finnst er ekki bara afrekið út af fyrir sig heldur gefur þetta öllum „smá“ liðum alls staðar í heiminum von um þess lags öskubuskuævintýri. Einnig er gaman að sjá peningana tapa baráttunni um titilinn og vonandi verður þetta svona hjá fleiri minni klúbbum um allan heim.

Sjá einnig:
Pistill: Ævintýri Leicester
Athugasemdir
banner
banner