„Við getum sagt það að það er ástæða fyrir því að þeir eru að starta þessir gaurar," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir að liðið vann 3-1 útisigur gegn 4. deildarliðinu KFG í bikarnum. Varamennirnir Arnþór Ari Atlason og Höskuldur Gunnlaugsson komu inn og sáu til þess að Blikarnir lönduðu sigri.
Kópavogsliðið náði lítið að skapa sér gegn þéttum varnarmúr KFG. Staðan var 1-1 þegar lítið var eftir og þá gerði Arnar tvöfalda skiptingu með tilætluðum árangri.
„Ég er sáttur við að við höfum komist áfram og ég gat gefið mörgum tækifæri. Ákveðnir aðilar stóðu sig vel en aðrir minntu minna á sig," sagði Arnar en hann tefldi nánast fram „varaliði" í kvöld.
„Ég veit að við getum miklu meira. Mér fannst strákarnir of fljótir að pirra sig á vellinum og það var eins og menn hefðu ekki gaman að því að spila. Menn þurfa að njóta sín þegar þeir spila fótbolta."
„Við erum með stóran leikmannahóp og gott að geta hvílt menn. Það er erfiður leikur gegn Leikni á sunnudag. Ég hef séð Leiknismenn í síðustu leikjum og þeir eru með hörkulið."
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir