Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 04. ágúst 2015 13:15
Magnús Már Einarsson
„Sigur hjá Watford gladdi mig meira en sigur hjá United"
Stuðningsmaður Watford - Kjartan Snemmi Hauksson
Kjartan Snemmi Hauksson.
Kjartan Snemmi Hauksson.
Mynd: Úr einkasafni
Treyjur sem Kjartan á.
Treyjur sem Kjartan á.
Mynd: Úr einkasafni
Troy Deeney hefur raðað inn mörkum með Watford.
Troy Deeney hefur raðað inn mörkum með Watford.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net mun hita vel upp fyrir keppni í ensku úrvalsdeildina sem hefst á laugardaginn. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Nýliðum Watford er spáð neðsta sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Kjartan Snemmi Hauksson er mikill Watford maður og hann svaraði nokkrum spurningum fyrir tímabilið sem er framundan.

Ég byrjaði að halda með Watford af því að.... Ég sá þátt um enska boltann þegar þeir voru í úrvalsdeildinni tímaiblið 99/00. Það heillaði mig að þetta var lítill fjölskylduklúbbur. Fannst líka skemmtilegt að Elton væri eigandinn og þegar þeir keyptu Heiðar Helguson í janúar að þá jókst áhuginn á þeim enn meira. Ég var reyndar United maður á þessum tíma og Watford varð lið númer 2. Næstu árin fylgdist maður reglulega með fréttum af Watford og fylgdist með hvernig þeim gengi í deild. Áhuginn var svo sem mismikill en Brynjar Björn og Jóhann B. juku hann pínu þegar þeir voru á mála hjá liðinu. Það var svo fyrir 3 árum sem ég ákvað að gerast áskrifandi af Hornet player. Þá gat maður farið að hlusta á leiki í beinni útsendingu og séð viðtöl við leikmenn og þjálfara, ásamt hápunktum úr leikjum. Svo atvikaðist þetta bara þannig að mér fannst skemmtilegra að hlusta á Watford leiki en horfa á United og sigur hjá Watford gladdi mig meira en sigur hjá United, þannig að ég hætti að fylgjast með United og hef verið gallharður Watford maður síðan.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Nei. Hef nokkrum sinnum farið á leiki á Englandi en aldrei með Watford. En stefnan er sett á Vicarage road á næstu 2-3 árum.

Uppáhalds leikmaður í liðinu í dag? Fyrirliðinn Troy Deeney. Varla annað hægt þegar maðurinn hefur skorað 20+ mörk á hverju tímabili síðustu 3 árin. Verður bara betri með hverju tímabilinu og verður spennandi að sjá hann taka næsta skref. Ætla að gerast svo djarfur að spá að hann muni spila sinn fyrsta landsleik í vetur, þótt það verði ekki nema æfingaleikur.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Lloyd Dier. Hann og Lewis McGugan voru vandræðagemsarnir í liðinu í fyrra. Small allt saman þegar Jokavic sendi þá í burtu. McGugan hefur þegar verið seldur til Sheffield Wednesday og Dier verið orðaður við Wolves síðustu daga og allar líkur á að hann sé á förum.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Þar sem ég mærði Deeney í svarinu hér að ofan að þá ætla ég að segja Almen Abdi. The midfield maestro, þegar hann er heill er hrein unun að horfa á manninn spila fótbolta. Skoraði líka nokkur falleg mörk utan af velli í fyrra.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Hér er freistandi að velja einhvern flashy framherja eða sóknarmiðjumann. En þar sem ég tel markið vera veikasta hlekkinn þá væri gott að hafa David De Gea í markinu.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Já líst mjög vel á Quique Sanchez Flores sem er nýkominn. Hann tók samt við af Slavisa Jokanovic sem kom liðinu upp þannig að það verður pressa á honum að ná árangri. Það bíður hans stórt verkefni en það er nokkuð ljóst að hann þarf að ná að hrista hópinn saman en það hefur verið keypt mikið af nýjum leikmönnum. Einnig verður liðið að venjast nýju kerfi en Flores vill spila 4-2-3-1 á meðan liðið hefur verið að spila 3-5-2 síðustu 3 tímabil.

Matej Vydra er mættur aftur á svæðið. Getur hann staðið sig jafn vel í ensku úrvalsdeildinni og hann gerði í Championship deildinni með Watford? Hann átti reyndar ekki gott tímabil með WBA í úrvalsdeildinni fyrir 2 árum en hann og Deeney ná vel saman og ég hef trú á að hann muni eiga gott tímabil.

Á annan tug nýrra leikmanna eru komnir til Watford í sumar. Er félagið ekki of mikið að taka magn fram yfir gæði? Maður er orðinn vanur þessu síðan Pozzo-fjölskyldan keypti liðið. Leikmannavelta búin að vera gífurleg síðustu þrjú ár. Komu 20 menn inn í fyrra bæði kaup og á láni og yfir 20 árið þar á undan.Er mjög ánægður með þau kaup sem hafa verið gerð í ár. Menn með reynslu að koma á lítinn pening. Kæmi heldur ekkert á óvart ef það bættust 2-3 leikmenn inn áður en félagaskiptaglugginn lokar. Það á enn eftir að kaupa framherja.

Í hvaða sæti mun Watford enda á tímabilinu? Miðað við metnað i þjálfararáðningu og leikmanna málum að þá er lágmarkskrafa að halda sér uppi. Ætla að spá liðinu 15. sæti sem væri mjög góður árangur miðað við tvö síðustu skipti sem Watford hefur verið í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner
banner