„Þetta var góður sigur í dag. Við mættum og börðumst frá fyrstu mínútu og alveg til enda. Það skilaði þremur stigum,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Breiðabliks, eftir 3-0 sigur á ÍBV.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 ÍBV
„Það er hægt að segja að við höfum bara byrjað þetta í seinni hálfleik,“ sagði Berglind Björg en hún skoraði öll þrjú mörk Blika sem öll komu í síðari hálfleik. Þetta var í annað skipti í sumar sem framherjinn öflugi skorar þrennu.
„Það er ekki leiðinlegt að skora þrjú mörk,“ sagði Berglind Björg sem er komin með 13 mörk í deildinni eins og þær Cloé Lacasse og Katrín Ásbjörns. Aðspurð segist hún ætla að reyna að setja pressu á markahæsta leikmann deildarinnar, Söndru Mayor, í síðustu umferðum.
Breiðablik er 5 stigum á eftir toppliði Þórs/KA og líkurnar á að norðankonur klári ekki dæmið eru nánast engar. Blikar eru hinsvegar í lykilstöðu til að hirða 2. sætið og ætla sér það.
„Við ætlum bara að halda áfram og vinna síðustu tvo leikina. Þá endum við í 2. sæti,“ sagði Berglind Björg að lokum en nánar er rætt við hana í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir