mán 04. desember 2017 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ancelotti vill ekki taka við ítalska landsliðinu
Mynd: Getty Images
Carlo Ancelotti segist ekki vera tilbúinn til að taka við Ítalíu. Hann vill ekki gegna starfi án þess að vera upptekinn við það daglega.

Ítalska þjóðin vill að Ancelotti taki við eftir skelfilega frammistöðu Ítala í undankeppni HM, þar sem liðið tapaði fyrir Svíum í umspilinu.

Gian Piero Ventura var rekinn sem landsliðsþjálfari og Carlo Tavecchio rekinn úr forsetastól knattspyrnusambandsins í kjölfarið.

„Knattspyrnusambandið er búið að hafa samband við mig. Ég er stoltur af því að sjá hversu margir vilja sjá mig í stjórastólnum en ég er ekki tilbúinn í það. Ég vil taka við félagsliði, ég nýt þess að vinna og mæta á æfingar daglega," sagði Ancelotti í beinni útsendingu í sjónvarpsþættinum La Domenica Sportiva.

Ancelotti, sem hefur verið orðaður við helling af störfum eftir brottreksturinn frá Bayern München, telur knattspyrnusambandið þurfa að laga ýmsa hluti til að geta verið með samkeppnishæft landslið.

„Það eru vandamál í ítalskri knattspyrnu sem þarf að laga til að gera landsliðið betra. Góð byrjun væri að fækka liðum í efstu deild úr 20 niður í 18. Ég veit að það eru mörg félög sem vilja það.

„Ég hef verið orðaður við mikið af störfum undanfarið en það er ekki satt að AC Milan sé búið að hafa samband við mig. Ég hef aldrei talað við nýju stjórnendur félagsins.

„Ég get sagt að ítalska deildin höfðar mest til mín um þessar mundir. Þar er mesta skemmtanagildið og gríðarlega spennandi toppbarátta."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner