þri 05. febrúar 2013 13:10
Magnús Már Einarsson
Kolbeinn Sigþórsson: Má spila 60 mínútur
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég vonast til að geta hjálpað liðinu sem fyrst með því að halda uppteknum hætti og skora mörk. Það hefur gengið vel með landsliðinu," sagði Kolbeinn Sigþórsson við Fótbolta.net í dag en hann er kominn í íslenska landsliðshópinn á nýjan leik eftir nokkurra mánaða fjarveru.

Kolbeinn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Rússum í vináttulandsleik annað kvöld. Kolbeinn er nýkominn af stað á nýjan leik eftir að hafa verið frá keppni síðan í ágúst vegna meiðsla á öxl.

,,Ég komst í gegnum þetta og sem betur fer er leiðinlegi tíminn afstaðinn. Það hefur ekki verið gaman að horfa á þetta úr stúkunni," sagði Kolbeinn sem missti af fjölmörgum leikjum með Ajax á meðan hann var frá keppni.

,,Við erum ennþá inni í öllum keppnum og ég get verið með í þeim leikjum sem eru eftir í Evrópudeild, deild og bikar. Ég missti samt af stórleikjum og það var svekkjandi."

Kolbeinn spilaði korter og skoraði tvö mörk þegar Ajax sigraði Vitesse 4-0 í hollenska bikarnum í síðustu viku. Hann vonast eftir að spila meira á morgun.

,,Ég má spila upp í 60 mínútur samkvæmt þjálfaranum og ég vonast til að fá eins margar mínútur og hægt er. Það kemur bara í ljós hvað Lars (Lagerback) vill láta mig spila mikið."

Leikurinn á morgun er síðasti leikur íslenska landsliðsins fyrir leikinn gegn Slóveníu í undankeppni HM þann 22. mars. Kolbeinn hefur ekki komið við sögu hingað til í undankeppninni en hann er ánægður með byrjun liðsins.

,,Þetta er mjög fínt. Við erum með 50% sigurhlutfall eftir þessa fjóra leiki og þetta lítur vel út. Það er ennþá séns og við getum gert góða hluti. Vonandi getum við látið drauminn rætast."

Auk Kolbeins kemur Eiður Smári Guðjohnsen aftur inn í íslenska landsliðshópinn á morgun í fyrsta skipti síðan í ágúst. Möguleikarnir í fremstu víglínu eru því margir.

,,Það er frábært að við séum með marga leikmenn sem geta spilað í stöðunum frammi. Því fleiri, því betra. Breiddin er mikil og það er gott fyrir landsliðið," sagði Kolbeinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner