fim 05. mars 2015 11:00
Magnús Már Einarsson
Viðar Örn: Gæðin meiri í Kína
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það er alltaf mikil tilbreyting að flytja í nýtt land, hvað þá aðra heimsálfu, en ég er mjög ánægður með allt hérna," sagði Viðar Örn Kjartansson við Fótbolta.net í dag en á laugardag hefur hann leik með Jiangsu Sainty í kínversku úrvalsdeildinni.

,,Aðstæður og allt hérna er til fyrirmyndar. Menningin og maturinn er auðvitað allt öðruvísi en maður er að venjast því. Áhuginn á knattspyrnu í Kína virðist vera mikill og hann er alltaf að verða meiri og meiri."

,,Þeir eru að reyna að breyta þessu svolítið hjá sér núna og eru að reyna að kaupa fleiri unga leikmenn sem eiga nóg eftir af sínum ferli og þurfa kannski að sanna sig í staðinn fyrir að kaupa bara stórstjörnur sem eiga lítið eftir af sínum ferli. Við fengum meðal annars þrjá leikmenn á mínum aldri í okkar lið."

,,Við fengum náttúrulega Sölva líka og hann á auðvitað fullt eftir,"
sagði Viðar léttur í bragði en Sölvi Geir Ottesen samdi við Jiangsu í lok síðasta mánaðar. ,,Það er frábært að fá hann og hjálpar mér mikið á æfingum og utan vallar. Hann kemur til með að styrkja liðið mikið líka."

,,Sterkari en ég bjóst við"
Viðar vissi lítið um kínversku úrvalsdeildinni þegar hann samdi við Jiangsu. Hann segir að segir að styrkleikinn hafi komið sér á óvart.

,,Miðað við það sem ég las á Íslandi þá vissi ég ekki hverju ég átti að búast við. Þeir eru klárlega sterkari en ég bjóst við. Það mega bara vera fimm útlendingar í hverju liði og bara þrír af þeim inn á vellinum í einu. Nýju útlendingarnir eru mjög sterkir og svo erum við með sex kínverska landsliðsmenn meðal annars. Þannig að styrkleikinn er meiri en ég reiknaði með."

,,Gæðin meiri í Kína"
Viðar segir erfitt að bera saman fótboltann í Kína og í Noregi þar sem hann sló í gegn með Valerenga á síðasta tímabili.

,,Þetta er öðruvísi fótbolti. Tempóið er meira og meira um stuttar sendingar. Í Noregi var þetta meira physical fótbolti og lengri sendingar. Tæknilega eru þeir betri hérna en taktískt eru þeir betri í Noregi. Það er erfitt að segja en gæðin eru meiri hérna í Kína."

Stefnir á 20 mörk
Viðar Örn skoraði 25 mörk þegar hann varð markakóngur í Noregi á síðasta tímabili. Hann setur stefnuna einnig hátt í Kína en þar eru 30 leikir í deildinni líkt og í Noregi.

,,Ég er vanur að setja mikla pressu á sjálfan mig. Í fyrra sagði ég til dæmis að ég ætlaði að skora 10-15 mörk og þá fengu fjölskylda og vinir sjokk. En mér finnst betra að stefna hátt þannig að ég stefni á að vera með þremur markahæstu í lok tímabils. Ég veit ekki hversu mörg mörk þarf til þess en ætli að það séu ekki um 20 stykki," sagði Viðar brattur að lokum..
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner