þri 05. maí 2015 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ancelotti: Kemur á óvart að Juve sé í undanúrslitum
Ancelotti vann Meistaradeildina á síðasta tímabili og þekkir gífurlega mikið til ítalskrar knattspyrnu, enda stýrði hann Juventus í tvö ár og Milan í átta.
Ancelotti vann Meistaradeildina á síðasta tímabili og þekkir gífurlega mikið til ítalskrar knattspyrnu, enda stýrði hann Juventus í tvö ár og Milan í átta.
Mynd: Getty Images
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, segir það vitleysu að líta á Real Madrid sem sigurstranglegra liðið fyrir leikinn gegn Juventus í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Ancelotti telur öll lið sem komast í undanúrslit eiga jafna möguleika á því að sigra keppnina en viðurkennir þó að hann hafi ekki búist við að sjá Juventus komast svona langt.

„Juve er í undanúrslitum vegna þess að leikmennirnir eiga það skilið," sagði Ancelotti á fréttamannafundi fyrir leik kvöldsins.

„Það kemur á óvart að þeir eru í undanúrslitum en það gerir okkur ekki sigurstranglegri. Þegar þú ert kominn í undanúrslitin getur allt gerst.

„Við vorum nánast búnir að tapa úrslitaleiknum í fyrra en unnum í lokin. Það eru fjögur lið eftir og þau eiga öll jafn mikla sigurmöguleika.

„Þetta eru undanúrslit Meistaradeildarinnar. Ef þú ert hugrakkur þá vinnurðu. Ef þú ert hræddur þá taparðu."

Athugasemdir
banner
banner