þri 05. maí 2015 17:00
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Jörundur Áki: Heiðar og Þorri eiga sviðið
Jörundur Áki er sérfræðingur .Net í Pepsi-deildinni.
Jörundur Áki er sérfræðingur .Net í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknismenn fagna sigri á Valsmönnum.
Leiknismenn fagna sigri á Valsmönnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjörnumenn unnu ÍA á Skipaskaga.
Stjörnumenn unnu ÍA á Skipaskaga.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Úr leik Fjölnis og ÍBV.
Úr leik Fjölnis og ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki Sveinsson er einn af sérfræðingum Fótbolta.net um Pepsi-deildina en hann fylgdist með 1. umferðinni sem lýkur á fimmtudaginn. Óvæntustu úrslitin í umferðinni hljóta að vera 3-0 útisigur Leiknis á Val.

Einnig fór Jörundur yfir hina leikina í umferðinni:

Skýrslur 1. umferðar:
Fjölnir 1 - 0 ÍBV
ÍA 0 - 1 Stjarnan
Keflavík 1- 3 Víkingur
Valur 0 - 3 Leiknir
KR 1 - 3 FH (Jörundur Áki um stórleikinn)

Valur átti ekki séns í Leikni
Jörundur Áki skellti sér á Hlíðarenda og sá Leikni leika sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi.

„Uppleggið heppnaðist alveg fullkomlega hjá Leikni. Þeir náðu að nýta sér sinn styrkleika. Þeir komu virkilega baráttuglaðir inn í leikinn og spiluðu á sínum styrkleikum. Þeir voru búnir að kortleggja Valsarana alveg, og loka leiðum sem Valur hefur verið að nýta sér. Það uppskar, þrjú stig, þrjú mörk og mikla stemningu. Mér fannst Valur aldrei eiga séns gegn Leikni."

„Það hjálpaði Leikni mikið að fá mark snemma, og ég tala nú ekki um tvö mörk eftir tæplega korter. Það gaf þeim gríðarlegt sjálfstraust og mikið búst. Þetta er mikið stemningslið og fer mikið á hjartanu. Það var virkilega góða holning á liðinu," segir Jörundur Áki.

Mikið hefur verið rætt um Ólaf Jóhannesson þjálfara Vals eftir ummæli hans um sitt lið fyrir mót.

„Óli hefur verið að tala liðið svolítið niður. Hann er ekki með bestu fótboltamenn landsins í þessu liði sínu og þarf greinilega að eiga sér stað mikil vinna á Hlíðarenda. Það þarf enginn að efast um það að Óli er frábær þjálfari," segir Jörundur sem bætir við að það vanti ákveðin gæði í Valsliðið.

„Þeir áttu ekki góðan dag gegn Leikni. Nú hafa þeir tækifæri til að bretta upp ermar og sýna úr hverju þeir eru gerðir í næsta leik. Það er erfitt að byrja mótið með tapi gegn nýliðum, og það svona illa. Það er spurning hvort þetta fari inn á sálina hjá mönnum."

Bjóst við meiru af Keflavík
Fjölnir unnu Eyjamenn 1-0 á heimavelli á sunnudaginn og seinna um kvöldið gerðu Víkingar góða ferð til Keflavíkur og fóru með sigur af hólmi 3-1.

„Maður átti alveg von á því að Fjölni myndi vinna ÍBV. Ég bjóst við meiru af Keflavík gegn Víking. Víkingarnir voru greinilega tilbúnir í þetta og spiluðu flottan leik og verðskulduðu sigur."

Jörundur Áki segir úrslitin á Skipaskaga lítið hafa komið á óvart. Íslandsmeistarnir sigruðu ÍA 1-0 með glæsilegu marki frá Ólafi Karli Finsen.

„Það eru gríðarleg gæði í Stjörnuliðinu og þeir hafa á að skipa gríðarlega flottum leikmönnum og með góða liðsheild. Þeir gerðu það sem þeir þurftu að gera. Það voru gæði í þeirra leik sem unnu þennan leik."

„Skaginn fengu hinsvegar ágætis færi í leiknum, en það þarf að nýta þau eins og alltaf."

Nýliðaslagurinn verður svakalegur
Garðar Jóhannsson og Veigar Páll Gunnarsson voru báðir á varamannabekknum hjá Stjörnunni í leiknum.

„Þeir eiga inni líka Atla Jó, Præst og Jóa Lax. Þetta er hrikalega vel mannað lið. Það verður ekkert auðvelt fyrir þessa leikmenn að koma sér inn í liðið, miðað við hvernig ungu strákarnir eru að spila núna. Heiðar Ægisson og Þorri Geir Rúnarsson eiga sviðið eins og staðan er í dag."

„Þeir litu betur út en ég bjóst við. Þeir eiga eftir að verða betri þegar líður tekur á. Þeir eiga eftir að hala inn stigum upp á Skaga. Það bíður þeirra erfitt verkefni í næstu umferð þegar þeir mæta Leikni. Það verður svakalegur slagur. Það er ekkert öfundsverk hlutverk fyrir þá að mæta Leikni í fyrsta heimaleik Breiðhyltinga," sagði Jörundur Áki að lokum sem býst við svakalegri stemningu á Leiknisvelli í næstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner