þri 05. maí 2015 16:07
Arnar Daði Arnarsson
Markmannsmálin
Markmannsþjálfari Keflavíkur: Arends tók ekki tilsögn
Sævar markmannsþjálfari Keflavíkur
Sævar markmannsþjálfari Keflavíkur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir sem horfðu á Pepsi-mörkin í gær sáu myndbrot þegar Sævar Júlíusson, markmannsþjálfari Keflavíkur, lét Richard Arends, markvörð Keflvíkinga heyra það eftir 3-1 tap gegn Víkingum.

Þriðja mark Víkinga var heldur skrautlegt. Aukaspyrnu-Ívar tók þá aukaspyrnu af 40 metrum og yfir Richard Arends sem var heldur framarlega í markinu þegar spyrnan var tekin.

„Það var nú gert of mikið úr þessu í Pepsi-mörkunum fannst mér. Þetta var ekki neitt, við töluðum svo saman inn í klefa og það var allt í lagi," sagði Sævar aðspurður út í sína hlið um málið.

„Ég fer til Arends beint eftir leik og segi við hann að hann verði að taka tilsögn betur. Ég sagði við hann í hálfleik að ég vissi hvernig Ívar Örn væri og að hann þyrfti að vera nær markinu í þessum föstu leikatriðunum. Hann var á sex metrunum og tók ekki tilsögninni," sagði Sævar en erlendir markverðir eiga oft erfitt með íslenska vindinn.

„Hann var búinn að standa sig vel í leiknum. Síðan kemur þessi aukaspyrna og hann ræður ekkert við vindinn. Þetta er sama og við lentum í með Jonas Sandqvist, hann var veikur fyrir vindinum. Þeir virðast ekki þekkja hann. Ef Richard Arends hefði verið aðeins aftar þá hefði þetta ekki verið neitt mál," sagði Sævar sem á ekki von á öðru en að Arends komi sterkur til baka í næsta leik og láti þetta ekki trufla sig.

Sjá einnig:
Markvörður Keflavíkur fær að heyra það


Athugasemdir
banner
banner