Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 05. maí 2016 09:30
Magnús Már Einarsson
Íslenskur stuðningsmaður Leicester: Þetta var óraunverulegt
Guðmundur Heiðar Eyþórsson hefur haldið með Leicester frá unglingsaldri.
Guðmundur Heiðar Eyþórsson hefur haldið með Leicester frá unglingsaldri.
Mynd: Úr einkasafni
Ótrúlegt tímabil.
Ótrúlegt tímabil.
Mynd: Getty Images
Fyrir tímabilið á Englandi ræddi Fótbolti.net við íslenska stuðningsmenn hjá öllum liðum í deildinni. Guðmundur Heiðar Eyþórsson, stuðningsmaður Leicester var meðal annars í viðtali. Hann segist ennþá vera að átta sig á ótrúlegu tímabili sinna manna.

„Þetta var satt best að segja óraunverulegt en um leið gerði maður sér grein fyrir að eitthvað einstakt hafi átt sér stað," sagði Guðmundur við Fótbolta.net.

„Það að hafa haldið með liði sem búið er að ganga í gegnum mikinn öldudal síðustu ár, til að mynda niður og aftur upp um tvær deildir á rétt 10 árum og sjá þá svo hampa enska úrvalsdeildartitlinum verðskuldað er algjörlega ómetanlegt."

Guðmundur spáði Leicester 10-12. sæti fyrir tímabil en hafði hann aldrei áhyggjur af því að liðið myndi missa forskot sitt niður á tímabilinu?

„Þar sem ég er mikill raunsæismaður þá gerð ég mér grein fyrir að líkunnar væru aldrei með mínum mönnum en hvað er að marka líkurnar þegar verið er að tala um Leicester. Í raun hafði ég alltaf góða tilfinningu eftir að tímabilið hófst og það var góð holning á liðinu þannig að trúin að þetta yrði að veruleika jókst bara og jókst."

Guðmundur segir erfitt að ætlast til þess að Leicester verði aftur meistari á næsta ári.

„Það er eiginlega bara frekja að ætlast til að toppa eða jafna þennan árangur en ef þeir ná að halda þessum kjarna af leikmönnum með vonandi góðum viðbótum, öllu í kring um liðið eins og þjálfarateymi, "scouta" og annað lykilstarfsfólk, viðhorfi eigenda og þessari mögnuðu stemmingu sem myndast hefur utan um liðið þá vona ég svo sannarlega að Leicester geti fest sig í sessi sem eitt af toppliðum Englands um ókomna tíð."

Guðmundur sagði í viðtalinu fyrir mót að stefnan væri sett á að fara í fyrsta skipti á leik með Leicester. Kærasta hans hafði lofað því ef Guðmundur myndi hætta að reykja sem og hann gerði.

„Við kærastan skelltum okkur reyndar til London, nánar tiltekið á Selhurst Park og sáum Leicester heimsækja Crystal Palace. Leikurinn sjálfur fer ekki í sögubækunar fyrir skemmtanagildi en við fengum samt nasaþefinn af stemningunni sem fylgt hefur liðinu og stuðningsmönnunum þetta magnaða tímabil," sagði Guðmundur glaður í bragði.
Athugasemdir
banner
banner