Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 05. maí 2016 11:35
Magnús Már Einarsson
Þorvaldur Örlygs: Fyrsta deildin virðist vera eins og pólitíkin
Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það skiptir ekki máli hvort spáin komi á óvart eða ekki. Við þurfum að spila í leikina og mæta í þá. Við höfum ekki mikið velt spánni fyrir okkur," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Keflvíkinga, aðspurður hvort það komi honum á óvart að liðinu sé spáð 2. sæti í Inkasso-deildinni í sumar.

Keflavík féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust og í kjölfarið tók Þorvaldur við liðinu. Hann segir að stefnan sé að fara aftur upp.

„Liðið féll niður og við viljum reyna að koma því aftur upp í úrvalsdeildina. Það eru örugglega tíu önnur lið að reyna það. Það eru tíu lið sem ætla beint eða óbeint upp, hvort sem þau lýsi því markmiði yfir um mitt sumar eða ekki."

„Fyrsta deildin virðist vera eins og pólítkin, menn segja eitt á haustin, annað um veturinn og svo eitthvað nýtt um vorið. Ég tala nú ekki um fjölda leikmanna sem er að koma inn, það er aldrei hægt að reikna með neinu í þessari deild."

„Það eru mörg lið sem koma til greina í toppbaráttunni. Það eru mörg lið sem hafa notað uppeldisstarfsemina sína, það eru mörg sem hafa notað peningana sína og það eru margar aðferðir. Það verður erfitt að ná í stigin."


Keflavík fór í undanúrslit Lengjubikarsins í vetur og í úrslit í B-deild Fótbolta.net mótsins.

„Það hefur gengið ágætlega. Við erum með fínasta hóp og fínustu leikmenn. Við misstum Jóhann Birni í handarbrot eftir að það var brotið á honum í leik á móti KR og hann verður lítið með okkur. Sömuleiðis misstum við Hólmar í krossbandaslit. Það var gríðarlegt áfall að missa góða og hæfileikaríka menn sem hefðu getað hjálpað okkur mikið í sumar. Við þurfum að treysta á aðra menn og vonandi standa þeir sig."

Fyrsti leikur Keflavíkur er gegn HK í Kórnum á morgun en þar mætir Þorvaldur liðinu sem hann stýrði 2014 og 2015.

„Það er fínt að fara inn í hlýjuna á þessum tíma ársins á slétt gras. HK hefur náð í mikið af úrslitum og stefnir hátt. Þeir eru með ferska straka sem vilja ná langt í fótbolta. Þetta verður hörkuleikur eins og flestir leikirnir í þessari deild í sumar. Það er ekkert öruggt hvort sem menn koma af Suðurlandi, að norðan eða austan," sagði Þorvaldur.
Athugasemdir
banner
banner
banner