fös 05. ágúst 2016 15:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvernig lítur framtíðin út hjá Íslandi? - Liðið eftir tíu ár
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir og Helgi Kolviðsson taka saman við landsliðinu
Heimir og Helgi Kolviðsson taka saman við landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var mikið um fagnaðarlæti á EM í Frakklandi
Það var mikið um fagnaðarlæti á EM í Frakklandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex er á milli stanganna
Rúnar Alex er á milli stanganna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons er í hægri bakverði
Alfons er í hægri bakverði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég tippa á að Sverrir verði framtíðarfyrirliði
Ég tippa á að Sverrir verði framtíðarfyrirliði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert er af mörgum talinn okkar efnilegasti leikmaður
Albert er af mörgum talinn okkar efnilegasti leikmaður
Mynd: Raggi Óla
Kolbeinn Birgir er á miðjunni
Kolbeinn Birgir er á miðjunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Velur Jónatan Ísland eða Belgíu?
Velur Jónatan Ísland eða Belgíu?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir frábæra frumraun á stórmóti á EM í Frakklandi er það spennandi að huga að framtíðinni hjá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Hvað mun gerast í undankeppni HM er næsta spurningin, en við á Fótbolti.net höfum ákveðið að huga aðeins lengra fram í tímann.

Síðustu ár hafa verið mótunartími hjá landsliðinu. Eftir afleitt gengi undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar og Ólafs Jóhannessonar var það ljóst að það var kominn tími á breytingar.

Landslið Íslands, skipað leikmönnum 21 árs yngri komst á EM í Danmörku og voru ekki langt frá því að komast í undanúrslitin þar. Liðið vann heimamenn frá Danmörku í lokaleik sínum í riðlakeppninni og munaði aðeins einu marki á því að liðið kæmist áfram.

Í þessu liði voru margir spennandi leikmenn sem voru einnig að taka sín fyrstu skref með A-landsliðinu á sama tíma og áttu svo eftir að láta til sín taka þar þegar leið á. Í þessu liði voru meðal annars leikmenn eins og Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson, leikmenn sem við þekkjum svo heldur betur vel í dag. Þetta eru leikmenn sem létu ljós sitt skína á EM í Frakklandi og hafa einnig gert það síðustu ár með landsliðinu.

Þegar þessir leikmenn voru að stíga sín fyrstu skref með Íslandi var liðið á tímamótum. Ekkert hafði gengið árin á undan og nú var leit farin í gang að nýjum þjálfara til að leiða þessa stráka og þetta lið áfram. Mörg nöfn komu upp í umræðuna, bæði íslensk sem og erlend og svo virtist sem KSÍ ætlaði að ráða hinn skapheita Roy Keane til starfa. Það varð hins vegar ekkert að því og þann 14 október 2011 var Lars Lagerback ráðinn sem landsliðsþjálfari Íslands. Heimir Hallgrímsson var ráðinn aðstoðarmaður hans og allir þekkja söguna eftir það.

Lars náði frábærum árangri með þessa stráka sem komu upp úr U21 árs landsliðinu í bland við þá sem eldri eru. Nú mun Heimir Hallgrímsson taka við stjórn liðsins, en í dag var Helgi Kolviðsson ráðinn sem aðstoðarmaður hans. Það verður spennandi að sjá hvernig samstarf Heimis og Helga verður og vonumst við auðvitað til þess að sjá Ísland áfram á stórmótum í framtíðinni.

Afar áhugavert er að velta fyrir sér framtíðinni. Hvernig mun lið Íslands líta út eftir tíu ár? Þetta er spurning sem ég ætla að skoða hér. Þetta er eingöngu til gamans, en það er náttúrulega aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.



Lið Íslands eftir tíu ár - Stillt upp í 4-4-2


Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson (Nordsjælland, fæddur 18. febrúar 1995)
Fleiri sem koma til greina: Anton Ari Einarsson (Valur, fæddur 25. ágúst 1994), Ólafur Íshólm Ólafsson (Fylkir, fæddur 8. maí 1995), Fredrik Schram (Roskilde, fæddur 19. janúar 1995), Sindri Kristinn Ólafsson (Keflavík, fæddur 19. janúar 1997), Daði Freyr Arnarsson (FH, fæddur 23. september 1998), Aron Birkir Stefánsson (Þór, fæddur 1. janúar 1999), Aron Dagur Jóhannsson (KA, fæddur 3. júlí 1999)
Af hverju? Rúnar Alex er án efa okkar efnilegasti markvörður. Hann er fæddur árið 1995 og verður því kominn á fertugsaldurinn árið 2026. Það verða vonandi hans bestu ár, en hann verður væntanlega búinn að eigna sér stöðuna nokkrum árum áður. Hann er búinn að byrja fyrstu leiki Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni og hefur spilað vel. Síðan skemmir það ekki fyrir að hann er sonur Rúnar Kristinssonar, leikjahæsta landsliðsmanns karlalandsliðsins.

Hægri bakvörður: Alfons Sampsted (Breiðablik, fæddur 6. apríl 1998)
Fleiri sem koma til greina: Viðar Ari Jónsson (Fjölnir, fæddur 10. mars 1994), Heiðar Ægisson (Stjarnan, fæddur 10. ágúst 1995), Adam Örn Arnarson (Álasund, fæddur 27. ágúst 1995), Ísak Atli Kristjánsson (Fjölnir, fæddur 10. janúar 1999)
Af hverju? Alfons Sampsted hefur komið við sögu í níu leikjum með Breiðablik í Pepsi-deild karla í sumar. Hann er sá leikmaður á 2. flokksaldri sem spilar mest í Pepsi-deildinni og það segir sitt. Hörkuleikmaður sem hefur vakið áhuga erlendra liða og mun án efa stefna út á næstunni.

Miðverðir: Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði (Lokeren, fæddur 5. ágúst 1993) og Hjörtur Hermannsson (Bröndby, fæddur 8. febrúar 1995)
Fleiri sem koma til greina: Orri Sigurður Ómarsson (Valur, fæddur 18. febrúar 1995), Samúel Kári Friðjónsson (Vålerenga fæddur 22. febrúar 1996), Axel Andrésson (Reading, fæddur 27. janúar 1998), Hörður Ingi Gunnarsson (FH, fæddur 14. ágúst 1998), Birkir Valur Jónsson (HK, fæddur 2. nóvember 1998), Torfi Tímoteus Gunnarsson (Fjölnir, fæddur 31. janúar 1999)
Af hverju? Sverrir Ingi og Hjörtur verða báðir komnir yfir þrítugt á þessum tíma. Það er þó mikilvægt að vera með reynslumikla menn í vörninni og sérstaklega mann eins og Sverri Inga sem er með mikla leiðtogahæfileika. Þeir eru báðir búnir að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og verða orðnir ansi reynslumiklir eftir nokkur ár. Það eru margir mjög efnilegir sem koma einnig til greina og má þar sjá menn eins og Samúel Kára sem mun eflaust veita þeim mikla samkeppni um sæti í liðinu.

Vinstri Bakvörður: Sindri Scheving (Reading, fæddur 19. nóvember 1997)
Fleiri sem koma til greina: Hörður Björgvin Magnússon (Bristol City, fæddur 11. febrúar 1993), Daníel Leó Grétarsson (Álasund, fæddur 2. október 1995)
Af hverju? Sindri er gríðarlega efnilegur og hefur eins og nokkrir aðrir efnilegir Íslendingar farið til Reading í Englandi. Þar hefur hann spilað með unglingaliðum félagsins auk þess sem hann á U19 og U17 ára landslið Íslands. Virðist vera okkar efnilegasti vinstri bakvörður í augnablikinu, en Hörður Björgvin er næsti maður í röðinni og spurning hversu lengi hann mun halda sæti sínu í liðinu.

Hægri Kantur: Albert Guðmundsson (PSV, fæddur 15. júní 1997)
Fleiri sem koma til greina: Birnir Snær Ingason (Fjölnir, fæddur 4. desmber 1996), Sveinn Aron Guðjohnsen (Valur, fæddur 12. maí 1998)
Af hverju? Albert Guðmundsson, sonur Gumma Ben, er fáranlega efnilegur og ef eitthvað er þá er hann okkar efnilegasti leikmaður. Hefur vakið athygli með unglingaliði PSV eftir að hafa komið frá Herenveen. Gríðarlega spennandi leikmaður sem á eflaust eftir að láta ljós sitt skína með landsliðinu eftir nokkur ár. Til vara er svo Sveinn Aron Guðjohnsen, en hann er sonur eins besta leikmanns í sögu Íslands, en það eru margir sem bíða í eftirvæntingu eftir að sjá hvort Sveinn Aron nái að fylgja í fótspor föður síns og afa, sem einnig var ansi góður í fótbolta.

Miðjumenn: Kolbeinn Birgir Finnsson (Groningen, fæddur 25. ágúst 1999) og Aron Elís Þrándarson (Álasund, fæddur 10. nóvember 1994)
Fleiri sem koma til greina: Oliver Sigurjónsson (Breiðablik, fæddur 5. maí 1995), Grétar Snær Gunnarsson (FH, fæddur 8. janúar 1997), Viktor Karl Einarsson (AZ Alkmaar, fæddur 30. janúar 1997), Júlíus Magnússon (Herenveen, fæddur 28. júní 1998), Alexander Ívan Bjarnason (Þór, fæddur 31. júlí 1998), Viktor Helgi Benediktsson (FH, fæddur 15. september 1998), Birkir Heimisson (Herenveen, fæddur 12. febrúar 2000) Ágúst Eðvald Hlynsson (Breiðablik, fæddur 28. mars 2000)
Af hverju? Það er ansi mikil breidd á miðjusvæðinu fyrir framtíðina. Kolbeinn Birgir Finnsson og Aron Elís Þrándarson eru settir sem byrjunarliðsmenn, en það getur allt breyst mjög auðveldlega miðað við breiddina sem er til staðar. Það eru margir leikmenn farnir út og það eru margir aðrir sem stefna út. Það er orðið minna um svona vinnuþjarka og í stað þess eru komnir fleiri teknískir leikmenn og framtíðin lítur ansi vel út, hvað miðjuna varðar.

Vinstri Kantur: Jón Dagur Þorsteinsson (Fulham, fæddur 26. nóvember 1998)
Fleiri sem koma til greina: Ásgeir Sigurgeirsson (KA, fæddur 12. nóvember 1996), Erlingur Agnarsson (Víkingur R., fæddur 5. mars 1998), Kristófer Ingi Kristinsson (Stjarnan, fæddur 7. apríl 1999)
Af hverju? Jón Dagur Þorsteinsson er nafn sem við munum eflaust heyra meira af. Hann fór ungur frá HK til Fulham í Englandi, en þar hefur hann verið að spila ansi vel með unglingaliðunum. Hann hefur meðal annars spilað með U21 árs liðinu þar og fengið lof fyrir frammistöðu sína. Ansi efnilegur strákur sem mun vonandi láta til sín taka í framtíðinni.

Framherjar: Jónatan Ingi Jónsson - Ef hann velur Ísland (AZ Alkmaar, fæddur 15. mars 1999) og Óttar Magnús Karlsson (Víkingur R., fæddur 21. febrúar 1997)
Fleiri sem koma til greina: Elías Már Ómarsson (Vålerenga, fæddur 18. janúar 1995), Atli Hrafn Andrason (Fulham, fæddur 4. janúar 1999), Guðmundur Andri Tryggvason (KR, fæddur 4. nóvember 1999), Helgi Guðjónsson (Fram, fæddur 4. ágúst 1999)
Af hverju? Það eru margir ungir og spennandi sóknarmenn til staðar. Þeir sem eru hvað mest spennandi í augnablikinu eru þeir Jónatan Ingi Jónsson og Óttar Magnús Karlsson. Belgíska knattspyrnusambandið vill að Jónatan velji að spila fyrir Belgíu, en hann á belgíska móður. Það yrði mjög ákjósanlegt ef hann velur Ísland, en hann hefur til að mynda verið áberandi með U17 ára landsliðinu. Félagi hans í sókninni er svo Óttas Magnús Karlsson, leikmaður Víkings R.. Hann var á mála hjá Ajax um tíma, en kom aftur heim fyrir þetta tímabil og hefur spilað vel í Fossvoginum í sumar.



Afar spennandi verður að sjá hvernig rætist úr þessu, en ég vil ítreka það að þetta er aðeins gert í gamni og biðst ég velvirðingar á því ef ég hef sleppt einhverjum nöfnum sem þið, lesendur góðir teljið að eigið heima í þessu liði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner