Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 05. október 2015 13:17
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Ási Arnars: Markmiðið að komast upp eins fljótt og hægt er
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Þetta átti sér ekki langan aðdraganda. Það var búið að fastsetja þetta í síðustu viku," sagði Ásmundur Arnarsson við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir þriggja ára samning við Fram.

Ásmundur spilaði með Fram frá 1997 til 2002 en hann mun nú þjálfa liðið.

„Þetta er kannski fjölskylduklúbburinn minn. Báðir foreldrarnir hafa verið hér og pabbi er uppalinn Framari. Bæði systkynin hafa verið hérna og bróðir minn (Guðlaugur Arnarsson, þjálfari handboltaliðs Fram) er hér ennþá. Það er mikil tenging við Fram."

Framarar féllu úr Pepsi-deildinni í fyrra og enduðu í níunda sæti í fyrstu deildinni í ár. „Það hefur verið mjög leiðinlegt að sjá þróunina á klúbbnum, síðustu tvö ár sérstaklega. Maður finnur að það er einhugur innan félagsins að bretta upp ermar og snúa dæminu við og mér finnst vera heillandi að taka þátt í því," sagði Ásmundur sem vill koma Fram aftur í fremstu röð.

„Markmiðið er að koma liðinu upp eins fljótt og hægt er. Við horfum í það að byggja klúbbinn rétt upp þannig að hann sé líka tilbúinn að takast á við það að fara upp."

Nánast allir leikmenn Fram eru samningsbundnir en Ásmundur segir að leikmannamálin skýrist betur á næstunni. „Við erum rétt að byrja í þeirri vinnu. Ég get lítið sagt um leikmannahópinn. Árangurinn í ár var ekki ásættanlegur og það þarf að skoða einhver mál í því."

Ásmundur stýrði ÍBV síðari hluta tímabils í Pepsi-deildinni en hann afþakkaði boð um að halda áfram með liðið.

„Ég var mjög spenntur fyrir því að fylgja því eftir og halda áfram. Við ræddum vel saman og ég skoðaði alla anga á því hvort það myndi ganga upp. Út frá mínum einkahögum þá gekk það ekki upp og því fannst mér starfið hjá Fram gríðarlega spennandi," sagði Ásmundur.
Athugasemdir
banner
banner