þri 05. desember 2017 13:00
Magnús Már Einarsson
Jóhann Berg: Verjumst 95% af leiknum gegn Argentínu
Icelandair
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Siggi dúlla
Jóhann Berg Guðmundsson, kantmaður íslenska landsliðsins og Burnley, er í viðtali við Lancashire Telegraph í dag þar sem hann ræðir um dráttinn í riðla fyrir HM í Rússlandi næsta sumar.

„Þetta var furðulegt fyrir dráttinn að sjá að við séum að fara þangað, þetta var frekar súrrealískt," sagði Jóhann Berg.

„Það er ennþá langt í þetta og við þurfum að einbeita okkur að félagsliði okkar en það er orðið raunverulegra núna að við séum að fara á HM eftir dráttinn."

Ísland verður í D-riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu.

„Þetta er erfiður dráttur. Þetta eru mjög góð lið en ég hlakka til fyrsta leiksins gegn Argentínu sem er frábært lið. Á EM mættum við Portúgal og Ronaldo fyrst en núna er það Argentína og Messi. Þetta verður gaman."

„Við mætum Króatíu aftur og við erum ekki mjög ánægðir með það. Við mættum þeim í umspili fyrir síðasta HM og núna voru þeir með okkur í riðli. Við vitum að við getum unnið þá."

„Nígería er einn erfiðasti andstæðingurinn úr fjórða potti en allt getur gerst á stórmóti eins og HM. Við höfum gert góða hluti í gegnum árin og við ætlum að fara út á völl, njóta þess og reyna að halda áfram að gera góða hluti."


Jóhann Berg er spenntur fyrir fyrsta leiknum gegn Argentínu í Moskvu þann 16. júní.

„Þú vilt spila gegn liðum sem þú mætir vanalega ekki. Það verður ótrúleg reynsla að spila gegn einu besta liði í heimi á fyrsta HM hjá okkur," sagði Jóhann.

„Messi er einn besti, ef ekki sá besti, sem hefur snert fótbolta svo það verður mjög gaman að reyna sig gegn honum."

„Við vitum að þetta verður erfitt. Við þurfum að verjast 95% af tímanum en þessi 5% sem við getum spilað smá fótbolta þá reynum við að ná marki og koma fólki á óvart."

Athugasemdir
banner
banner
banner