Varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson hjá Val er ánægður með hvernig honum gekk á reynslutíma sínum hjá norska úrvalsdeildarliðinu Valerenga. Orri æfði með liðinu seint í síðasta mánuði en hann var með liðinu í æfingaferð á Spáni og lék einn æfingaleik.
„Ég fékk góð viðbrögð frá þjálfaranum eftir að hann var þarna en annars er ekkert að frétta. Ég hef ekki heyrt neitt meira," segir Orri sem býst þó við að nafn sitt sé enn á borðinu hjá félaginu.
„Þeir voru ánægðir með mig en ég veit ekkert hvort það verði eitthvað meira."
Orri er 22 ára gamall miðvörður og segist ekki vera mikið að stressa sig á hlutunum.
„Ég er ekkert að drífa mig út. En þegar maður er búinn að upplifa þetta, sjá hvernig hlutirnir eru hjá þeim og búinn að vera í A-landsliðinu þá vill maður auðvitað fara út. Ég get ekki gert neitt annað en beðið og séð hvernig þetta þróast."
Orri hefur leikið mjög vel með Valsmönnum og varð bikarmeistari með liðinu síðustu tvö tímabil.
Athugasemdir