Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 06. mars 2017 17:14
Elvar Geir Magnússon
Viðar Ari orðinn leikmaður Brann (Staðfest)
Viðar skrifar undir samninginn við Brann.
Viðar skrifar undir samninginn við Brann.
Mynd: Brann
Viðar í baráttunni í vináttuleik gegn Síle.
Viðar í baráttunni í vináttuleik gegn Síle.
Mynd: Getty Images
Fjölnir hefur gengið frá sölu á Viðari Ara Jónssyni til Brann þar sem hann hefur gengið frá þriggja ára samningi við liðið sem lenti í 2 sæti í norsku úrvaldsdeildinni á síðasta tímabili.

Samhliða sölunni á Viðari þá hafa félögin tvö gert með sér samkomulag um frekara samstarf sem m.a. mun fela í sér að Fjölnir mun senda efnilega leikmenn til æfinga hjá Brann.

Viðar Ari heldur til La Manga á Spáni á miðvikudaginn þar sem hann mun hitta fyrir nýju liðsfélaga sína í æfingarferð.

Viðar er fjórtándi Íslendingurinn sem hefur verið hjá Brann og því óhætt að segja að rík hefð sé fyrir Íslendingum hjá félaginu. Þar á meðal lék Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, með Brann 1995-1998.

„Við erum að fá leikmann sem er þegar góður en við erum sannfærðir um að hann eigi eftir að verða enn betri á komandi árum. Viðar mun koma með meiri samkeppni í hópinn og gefa þjálfaranum fleiri kosti," segir Rune Soltvedt, íþróttastjóri Brann. Soltvedt segir að Viðar sé meðal mest spennandi leikmanna í íslenska boltanum.

„Ég ætla að lofa ykkur því. Þetta verður árið. Ég ætla að kýla á atvinnumennsku. Mér finnst ég vera klár í það og væri mikið til í að taka skrefið," sagði Viðar í útvarpsþætti Fótbolta.net í síðasta mánuði.

Viðar verður 23 ára í lok vikunnar en hann hefur leikið sem bakvörður síðustu ár. Hann var á bekknum í úrvalsliði Pepsi-deildarinnar fyrir síðasta tímabil. Hann hefur tekið þátt í æfingaleikjum A-landsliðsins á þessu ári.



Athugasemdir
banner
banner
banner