banner
   þri 06. mars 2018 11:27
Elvar Geir Magnússon
Arsenal horfir til markvarðarins Leno
Leno er 26 ára.
Leno er 26 ára.
Mynd: Getty Images
Arsenal hefur áhuga á því að fá Bernd Leno, markvörð Bayer Leverkusen. Félagið er að leita að framtíðarmarkverði en Petr Cech er kominn vel yfir sitt besta og hefur gert mörg mistök á tímabilinu.

Arsenal vill fá markvörð, miðvörð og varnarmiðjumann og Leno er sagður vera efstur á lista Arsenal þegar kemur að öftustu stöðu vallarins.

Bild segir að Napoli hafi einnig áhuga á þessum 26 ára markverði sem á sex landsleiki fyrir Þýskaland.

Petr Cech er orðinn 35 ára og á enn ár eftir af samningi sínum.

Leno er talinn mjög traustur markvörður með mikinn stöðugleika en hann hefur aðeins misst af þremur leikjum á síðustu sjö árum hjá Bayer Leverkusen.

Leno er með 22 milljóna punda riftunarákvæði í samningi sínum en reikna má með talsverðum breytingum á leikmannahópi Arsenal í sumar. Þá er óvissa með framtíð Arsene Wenger eins og fólk veit.
Athugasemdir
banner
banner