þri 06. mars 2018 20:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Henry útskýrir ummæli sín í garð Oxlade-Chamberlain
Oxlade-Chamberlain spilar í dag með Liverpool.
Oxlade-Chamberlain spilar í dag með Liverpool.
Mynd: Liverpool
Thierry Henry. ,,Ég er viss um að stuðningsmenn Arsenal hefðu elskað að sjá þennan Alex Oxlade-Chamberlain á Emirates-leikvanginum.
Thierry Henry. ,,Ég er viss um að stuðningsmenn Arsenal hefðu elskað að sjá þennan Alex Oxlade-Chamberlain á Emirates-leikvanginum.
Mynd: Getty Images
Thierry Henry hefur svarað Alex Oxlade-Chamberlain sem sagði að ummæli Frakkans um sig hefðu verið „heimskuleg".

Alex Oxlade-Chamberlain var maður leiksins er Liverpool lagði Newcastle að velli með tveimur mörkum gegn engu um helgina.

Chamberlain nýtti tækifærið að leikslokum til að skjóta á Gary Neville og Henry, knattspyrnusérfræðinga á Sky.

Neville og Henry hafa látið ýmis ummæli fljúga um Chamberlain, þar sem þeir telja hann ekki nægilega góðan knattspyrnumann. Þetta segja þeir eftir að hafa báðir starfað með honum, Neville hjá enska landsliðinu og Henry hjá Arsenal.

„Ég hef fylgst með honum mjög lengi og ég veit ekki ennþá í hverju hann er góðu," er meðal þess sem Henry sagði um Chamberlain þegar hann skipti úr Arsenal í Liverpool síðasta sumar.

Uxinn svaraði þeim félögum og sagði:

„Ég veit vel af þessum ummælum þeirra. Þetta eru heimskuleg ummæli hjá þeim."

Henry hefur nú útskýrt af hverju hann sagði það sem hann sagði.

„Oxlade-Chamberlain á hrós skilið fyrir það sem hann hefur gert á þeim stutta tíma sem hann hefur spilað fyrir Liverpool. En þetta sáum við ekki hjá Arsenal," sagði Henry.

„Það sem ég er að meina, ef ég nota Frank Lampard sem dæmi - allir vissu í hverju hann var góður. Sérgreinin hans var að hlaupa upp völlinn, koma seint inn í teiginn og skora mörk. Og líka að gefa fjöldann allan af stoðsendingum."

„Hjá Arsenal var líka mikil umræða um það hver besta staða hans á vellinum væri. Einn daginn var hann vængbakvörður, þann næsta var hann vinstri kantmaður, svo hægri kantmaður eða í holunni. Það var vandamálið, við vissum ekki hver hans besta staða væri."

„Það er svo erfitt að finna út hver þú ert og í hverju þú ert góður ef þú spilar ekki nokkra leiki í röð í sömu stöðunni. Það er erfitt að koma sér í gang, tölfræðin styður það. Í 132 leikjum fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni skoraði hann bara níu mörk og lagði upp 14 en fyrir Liverpool er hann nú þegar með þrjú mörk og fimm stoðsendingar."

„Núna höfum við séð hvernig leikmaður hann er. Ég er viss um að stuðningsmenn Arsenal hefðu elskað að sjá þennan Alex Oxlade-Chamberlain á Emirates-leikvanginum."
Athugasemdir
banner
banner
banner