Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 06. maí 2013 13:30
Magnús Már Einarsson
Gunnar Guðmunds: Eðlileg spá
Gunnar Guðmundsson.
Gunnar Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta kemur alls ekki á óvart. Okkur er jafnvel spáð ofar en ég reiknaði með. Þó að liðið hafi komið niður úr úrvalsdeild þá eru það miklar breytingar á hópnum að ég tel að þetta sé eðlilegt," segir Gunnar Guðmundsson þjálfari Selfyssinga en liðinu er spáð fimmta sæti í fyrstu deildinni í sumar.

,,Við erum að búa til nýjan hóp og erum að byggja undir nýtt lið. Markmið okkar er að sjálfsögðu að berjast í efri hlutanum og vonandi gengur það eftir."

Selfyssingar hafa fengið tvo Spánverja, einn Englending og Króata til liðs við sig í vetur en Gunnar segir að það sé erfitt að fá íslenska leikmenn til að koma til félagsins.

,,Við erum búnir að fá til okkar fjóra erlenda leikmenn og það er í samræmi við flest af þessum liðum sem eru utan Reykjavíkur. Það er ekki auðvelt að fá íslenska leikmenn þannig að við erum upp á það komnir að fá erlenda leikmenn og ég held að þeir séu ekkert óeðlilega margir, þetta hefur minnkað mjög mikið á milli ára."

19 farnir síðan í fyrra:
Hvorki fleiri né færri en 19 leikmenn eru horfnir á braut síðan Selfoss féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust.

,,Það var ljóst að það yrðu miklar breytingar eftir síðasta tímabil og ég vissi alveg við hverju ég var að taka. Við erum að byggja upp ungt lið og erum að leggja áherslu á að taka inn unga leikmenn frá Selfossi."

,,Við erum að byggja upp kjarna af heimamönnum en við þurfum líka reynslu inn í liðið og þess vegna tókum við inn þessa útlendinga sem eru að koma inn með góða reynslu og eiga eftir að skipta sköpun fyrir okkur."


Tveir á leiðinni frá Brentford:
Selfyssingar fóru í vetur í samstarf við enska félagið Brentford og tveir leikmenn þaðan eru væntanlegir til félagsins á næstunni.

,,Þetta samstarf gengur meira út á það að vera með skipti á ungum leikmönnum. Það fóru tveir ungir leikmenn frá okkur til Brentford í vetur. Við fáum væntanlega í maí tvo unga stráka frá Brentford til okkar en þeir verða bara hjá okkur í mánuð. Það verður að koma í ljós hvort þeir geta styrkt okkur en við erum ekki að fara að byggja á þeim," sagði Gunnar sem býst við hörkukeppni í 1. deildinni í sumar.

,,Þetta verður gríðarlega jöfn deild á ég von á. Bróðurparturinn af liðunum á möguleika á að fara upp. Það eru kannski 2-3 lið sem hugsa fyrst og fremst um að tryggja sitt sæti í deildinni á meðan flest önnur horfa meira upp á við. Flest þessi lið hafa styrkt sig töluvert frá síðasta tímabili og ég held að deildin verði mjög jöfn í ár."
Athugasemdir
banner
banner
banner