Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 06. október 2017 12:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fjölnismenn ekki svekktir - „Kveðjum Gústa með söknuði"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við kveðjum Gústa með söknuði," sagði Kristján Einarsson, formaður meistaraflokksráðs Fjölnis, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Tilkynnt var í morgun að Ágúst Gylfason hefði verið ráðinn til Breiðabliks eftir að hafa starfað lengi í Grafarvoginum.

„Hann er búinn að eiga frábær ár hjá okkur, bæði sem þjálfari og leikmaður. Við eigum eftir að sakna hans en við óskum honum velfarnaðar í nýju verkefni," segir Kristján.

Hann segist ekki vera pirraður eða svekktur með ákvörðun Gústa.

„Nei, þetta er bara svona. Við vildum auðvitað halda honum, það lá fyrir. Hann er búinn að vera hluti af þessari Fjölnisfjölskyldu í tíu ár og menn kveðjast sáttir," sagði hann.

Fjölnismenn ætla að taka því rólega og vanda sig í vinnslu á ráðningu nýs þjálfari enda eru þjálfaraskipti ekki tíð hjá félaginu.

„Eins og menn vita eru ekki tíð þjálfaraskipti í Grafarvoginum. Ætla það séu ekki búnir að vera þrír þjálfarar síðan 2002 í meistaraflokki karla. Við ætlum að draga andann og meta okkar stöðu. Við teljum að þetta sé áhugaverður kostur að þjálfa Fjölni."

„Hér eru fullt af ungum og efnilegum strákum sem gaman er að þjálfa," segir Kristján sem vonast til að byggja áfram á þessum strákum. „Það er stefnan, að halda áfram að byggja á þessum ungu strákum sem eru hérna," sagði hann.





Athugasemdir
banner
banner