Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 06. desember 2017 11:50
Elvar Geir Magnússon
Moyes hyggst bekkja Joe Hart
Joe Hart í vandræðum.
Joe Hart í vandræðum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guardian greinir frá því að David Moyes, stjóri West Ham, sé að íhuga það alvarlega að geyma markvörðinn Joe Hart á bekknum gegn Chelsea á laugardaginn.

Hart hefur gert talsvert af mistökum síðan hann kom á láni frá Manchester City.

Þar sem West Ham mætti Manchester City um síðustu helgi mátti Hart ekki spila og Adrian fór þá í markið. Adrian lék mjög vel í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik á tímabilinu.

Moyes var ánægður með Spánverjann og talið er að hann hafi gert nóg til að halda Hart utan liðsins.

Það yrði mikið áfall fyrir Hart sem er aðalmarkvörður Englands og HM í Rússlandi tekur við eftir tímabilið. Gareth Southgate landsliðsþjálfari hefur gefið það skýrt út að leikmenn verða að spila reglulega fyrir félög sín til að eiga möguleika á að fara með til Rússlands.

Hart fær samkeppni frá Jordan Pickford hjá Everton og Jack Butland í Stoke um treyju númer eitt hjá enska landsliðinu.

Hart hafði vonast til þess að koma ferli sínum aftur á skrið eftir að hann var settur út í kuldann hjá City af Pep Guardiola. Hart var lánaður til Torino á síðasta tímabili þar sem hann náði ekki að sýna stöðugleika og þá hefur hann ekki náð að standa undir væntingum hjá West Ham.

Hart hefur fengið á sig 30 mörk í 14 leikjum og var harðlega gagnrýndur eftir 4-0 tap gegn Everton á Goodison Park.

West Ham er í 19. sæti og hefur ekki unnið síðan Moyes tók við af Slaven Bilic í síðasta mánuði. Varnarframmistaðan gegn City var þó góð og Adrian átti stóran þátt í því.
Athugasemdir
banner
banner
banner