banner
   mið 06. desember 2017 17:44
Elvar Geir Magnússon
West Ham og Newcastle vilja fá Ings lánaðan
Ings er 25 ára.
Ings er 25 ára.
Mynd: Getty Images
Guardian greinir frá því að fjögur úrvalsdeildarfélög að minnsta kosti vilji fá sóknarmanninn Danny Ings lánaðan frá Liverpool í janúar. Enski sóknarmaðurinn hefur gengið í gegnum tvö erfið ár vegna meiðsla.

Þessi fyrrum sóknarmaður Burnley hefur ekki byrjað úrvalsdeildarleik síðan hann skoraði í grannaslag gegn Liverpool í október 2015.

Það var síðasti leikur Liverpool undir stjórn Brendan Rodgers og dagurinn sem Ings var valinn í enska landsliðshópinn fyrir leik gegn Litháen í undankeppni EM.

Ings skaddaði liðbönd í vinstra hné á fyrstu æfingu Liverpool með Jurgen Klopp eftir að takkarnir á skó hans festust í grasinu.

Ings var frá í sjö mánuði en hann varð svo fyrir því áfalli að meiðast illa á hægra hné í deildabikarleik snemma á síðasta tímabili.

Á þessu tímabili hefur hann spilað 17 mínútur en það var þegar hann kom af bekknum í tapi í bikarleik gegn Leicester City.

Hann hefur þó náð að spila vel með varaliði Liverpool og skoraði fjögur mörk í leik gegn Bristol City og svo tvö gegn Stoke fyrr í þessari viku.

West Ham og Newcastle munu reyna að fá Ings lánaðan í janúar. David Moyes stjóri West Ham er mikill aðdáandi og Newcastle sýndi honum áhuga síðasta sumar.

Þá segir Guardian að Stoke City og Crystal Palace hafi einnig áhuga auk þess sem mögulegt sé að West Bromwich Albion og Brighton & Hove Albion blandi sér í baráttuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner